Nauðsynleg innspýting

Erlent vinnuafl er mikilvæg innspýting í efnahagslífið.
Erlent vinnuafl er mikilvæg innspýting í efnahagslífið. mbl.is/RAX

Um 23% starfsfólks á Íslandi eru erlendir ríkisborgarar, sem hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Hefur þátttaka þeirra á vinnumarkaði verið lykilþáttur í að skapa hagvöxt síðustu ára. Atvinnuþátttaka þeirra er mjög há, eða 94% samanborið við 77% hjá innfæddum. Er beinlínis nauðsynlegt að fá þessa innspýtingu vinnandi fólks. Þetta kemur fram í aðsendri grein eftir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu í dag.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Hannes bendir m.a. á að hækkandi meðalaldri þjóðarinnar fylgi að íslenskum ríkisborgurum á vinnualdri muni fjölga enn hægar á næstu árum og áratugum. Gera megi ráð fyrir að Íslendingum á vinnualdri fjölgi um 5.000 á næstu 10 árum. Það dugi skammt til að manna störf framtíðarinnar. Búast megi við að erlendum ríkisborgurum haldi áfram að fjölga. Setur Hannes fram framreikninga sem gefa til kynna að verði hagvöxtur fremur lítill næsta áratuginn, eða 1,5% að jafnaði árlega, gætu erlendir starfsmenn orðið 14.000 fleiri árið 2030 en þeir eru nú. ,,Verði hagvöxtur á hinn bóginn kröftugur, 3% á ári að jafnaði, gæti þeim fjölgað um 32.000,“ segir í greininni.

Hannes bendir á að á árunum 2014-2019 hafi hlutfall innflytjenda af íbúafjölda hækkað úr 7% í 14%, en til samanburðar hækkaði hlutfallið í Svíþjóð úr 7% í 9%. „Þessar tölur sýna að viðfangsefni Íslands við aðlögun innflytjenda er margfalt stærra en Svíþjóðar,“ segir í greininni.

Tryggja þarf aðlögun

Nauðsynlegt sé að setja fram skýra stefnu um hvernig hlúð verður að tungumálinu á sama tíma og aðlögun að aukinni fjölbreytni í íbúauppruna á sér stað. Síðustu misseri hefur atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi aukist töluvert, á sama tíma og harðnað hefur í ári. Segir í greininni að stjórnvöld þurfi að sporna við þessu með því að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja, í atvinnuleit og hjálpa þeim að festa rætur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert