Raforkuverð eigi erindi við almenning

Forsætisráðherra segir ótímabært að fara að gefa sér eitthvað um …
Forsætisráðherra segir ótímabært að fara að gefa sér eitthvað um niðurstöður viðræðna Rio Tinto og Landsvirkjunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðherra segir mikilvægt að upplýsingar um samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar á Íslandi liggi fyrir, svo sem með tilliti til raforkuverðs. Þá segir hún að aukið gagnsæi um raforkuverð yrði til góðs.

„Mér er auðvitað kunnugt um að það hefur verið þung staða hjá fyrirtækinu, sem skýrist ekki síst á lágu heimsmarkaðsverði á áli,“ segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við mbl.is vegna áforma Rio Tinto um að endurskoða starfsemi álversins í Straumsvík.

Að sögn Katrínar hefur staðan ekki verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar að öðru leyti en því að iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hafi kynnt þá ákvörðun sína að fela erlendum aðila að gera úttekt á samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar á Íslandi. 

Mikilvægt að upplýsingar um samkeppnishæfni liggi fyrir

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að þær upplýsingar liggi fyrir og ég vil líka segja að vegna þess er hér er mikið rætt um samanburð á verði milli ólíkra aðila að aukið gagnsæi um orkuverð til þessara fyrirtækja væri auðvitað mjög til góðs.“

„Mér er auðvitað kunnugt um að það hefur verið þung …
„Mér er auðvitað kunnugt um að það hefur verið þung staða hjá fyrirtækinu, sem skýrist ekki síst á lágu heimsmarkaðsverði á áli,“ segir Katrín. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þegar um er að ræða sölu á raforku, sem varðar auðvitað almenning, þá hef ég verið mjög fylgjandi auknu gagnsæi og mér sýnist nú raunar að bæði forsvarsmenn fyrirtækisins og Landsvirkjunar tali fyrir því líka. Ég er sammála og tel að þetta séu mikilvægar upplýsingar. Þarna eru upplýsingar sem eiga erindi við almenning því þarna erum við auðvitað að selja raforkuna okkar,“ segir Katrín.

Ótímabært að gefa sér til um niðurstöður viðræðna

Þá segir hún ekki tímabært að fara að gefa sér neitt til um niðurstöðu viðræðna Rio Tinto og Landsvirkjunar, spurð áhrif mögulegrar lokunar álversins á þjóðarbúið. „Nú er bara þetta samtal í gangi og það mun standa yfir fram á þetta ár þannig að ég held það sé ekki tímabært að gefa sér neitt um hver niðurstaðan verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert