Skjalavarsla vegna braggans ekki í samræmi við lög

Bragginn umdeildi í Nauthólsvík.
Bragginn umdeildi í Nauthólsvík.

Skjalavarsla og skjalastjórn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) vegna framkvæmda við braggann í Nauthólsvík samræmdist ekki í veigamiklum atriðum lögum um opinber skjalasöfn.

Þetta kemur fram í niðurstöðum frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns Reykjavíkur, sem var kynnt á fundi borgarráðs í morgun.

Skjöl vistuð löngu síðar

Þar segir að í ákveðnum tilvikum voru skjöl vistuð löngu eftir að þau voru mynduð. Meðal annars var mikill fjöldi skjala vistaður í skjalavistunarkerfi eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína.

Skjöl voru ítrekað vistuð með þeim hætti að þau voru ekki aðgengileg í samræmi við kröfur laga um opinber skjalasöfn. Jafnframt uppfyllti skjalavistunaráætlun og málalykill sem SEA vann eftir ekki skilyrði reglna um slík gögn. Meðal annars voru þessi gögn ekki send Borgarskjalasafni til yfirferðar og staðfestingar í samræmi við ákvæði framangreindra reglna.

Brot gegn lögum um opinber skjalasöfn kunna að varða refsingum eða skaðabótum, sbr. 11. kafla laga um opinber skjalasöfn. Slík brot varða sektum eða allt að þriggja ára fangelsi.

Úr bragganum í Nauthólsvík.
Úr bragganum í Nauthólsvík. mbl.is/Hari

Þarf að stuðla að gagnsærri stjórnsýslu

Í niðurlagi skýrslu Borgarskjalasafns Reykjavíkur kemur fram að skjalavarsla og skjalastjórn SEA í tengslum við endurgerð bygginga við Nauthólsveg 100 var ekki með þeim hætti sem lög og reglur kveða á um þrátt fyrir að bætt hafi verið úr ákveðnum annmörkum eftir að rannsókn safnsins hófs.

„Mikilvægt er að fylgt sé ákvæðum laga um opinber skjalasöfn og reglna settra með stoð í þeim. Slíkt stuðlar að gagnsærri stjórnsýslu og vandaðri meðferð opinberra hagsmuna og tryggir örugga vörslu og meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Þannig er vönduð skjalavarsla forsenda þess að almenningur fái notið þess réttar sem honum er tryggður í upplýsingalögum og lögum um opinber skjalasöfn,“ segir í niðurlaginu.

Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. mbl.is/Eggert

„Mikill áfellisdómur“

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðu skýrslunnar vera mjög skýra. Lög hafi verið brotin, brotaviljinn einbeittur, skjöl hafi ekki verið vistuð og jafnvel hafi verið reynt að leyna fjölmiðla efninu. „Þetta er mikill áfellisdómur,“ segir Eyþór og gagnrýnir einnig að skýrslan, sem var tilbúin í desember, hafi ekki verið birt „fyrr en eftir dúk og disk“.

Spurður út í næstu skref vegna skýrslunnar segist hann vilja fá alvöru umfjöllun um efni hennar. Farið verði yfir hvað gerðist og staðan í dag verði könnuð. „Þetta er fyrst og fremst staðfesting á því hvernig stjórnsýslan hefur verið í molum.“ Nefnir hann bæði framúrkeyrslu hjá borginni, óheimilar greiðslur og skjalastjórnun.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samhljóða skýrslu innri endurskoðunar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar, segir að skýrsla Borgarskjalasafns sé samhljóða skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið. „Það er ekkert nýtt í þessari skýrslu.“

Hún bendir á að Reykjavíkurborg hafi farið í aðgerðir eftir að sú skýrsla kom út. „Fyrst og síðast eru búnar að fara fram gríðarlega miklar skipulagsbreytingar og breytingar á verklagi síðan í janúar í fyrra.“

Þórdís Lóa bætir við að borgin hafi ákveðið að setja einn milljarð á næstu fimm árum í nýtt upplýsingastjórnunarkerfi til að bæta skjalamálin og alla umsýslu í kringum það. Sú vinna sé í fullum gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert