Bálhvasst á öllu Suðurlandi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Guðbrandur Örn Arnarson, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir að um 170 björgunarsveitarmenn séu að störfum í augnablikinu en um tíma í nótt voru þeir rúmlega 230 talsins. Flest útköllin hafa verið í Vestmannaeyjum en núna er talsvert um útköll á Kjalarnesi. Þar er brjálað veður en Guðbrandur segir að það eigi sérstaklega við örfáar götur.

Eins hafa björgunarsveitir sinnt foktjóni á Selfossi, Hellu á Rangárvöllum og Hafnarfirði. Eins og Guðbrandur bendir á er veðrið að versna til muna og viðbúið að útköllum muni fjölga hratt næstu klukkustundirnar. Þetta verður stutt en skarpt hér sunnan til á landinu, segir Guðbrandur og bætir við að þar liggi munurinn á óveðrinu um miðjan desember á Norðurlandi en það geisaði í mun lengri tíma. Búast megi við að veðrið verði að mestu gengið yfir allt landið í fyrramálið.

Fólk haldi sig heima

Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, segir að veðrið sé að versna mjög mikið á Suðurlandi og það besta sem fólk geti gert sé að halda sig heima á meðan veðrið gengur yfir. Hann segir að veðrið hafi verið verst í Mýrdalnum í gærkvöldi og í nótt en nú sé orðið býsna hvasst víðar. Fárviðri hefur mælst á nokkrum stöðum, svo sem í Vestmannaeyjum og Steinum undir Eyjafjöllum.

Björgunarsveitir eru að sinna útköllum á nokkrum stöðum en meðal annars hafa skjólveggir tekist á loft og svalahurðir rifnað upp. Rafmagn fór af í Mýrdalnum skömmu fyrir fimm og eins sló Hvolsvallarlína út núna á sjötta tímanum. Grímur segir að unnið sé að því að koma varaafli á. 

Aðgerðastjórnin er á Selfossi en björgunarsveitir og lögregla að störfum í öllum helstu þéttbýlisstöðum á Suðurlandi. „Það er orðið bálhvasst á öllu svæðinu,“ segir Grímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert