Bílar fuku við Ásbrú

Björgunarsveitarmenn á Suðurnesjum hafa haft í nógu að snúast í …
Björgunarsveitarmenn á Suðurnesjum hafa haft í nógu að snúast í morgun. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Útköll á Suðurnesjum vegna óveðursins eru orðin hátt í fimmtíu talsins.

Að sögn Ólafs Helga Kjartanssonar lögreglustjóra fuku bílar uppi við Ásbrú, þakplata fauk á bíl í Reykjanesbæ og hugað var að skipi í Njarðvíkurhöfn sem þurfti að festa.

Þak og veggur fauk af húsi í Vogum og sjór gekk yfir Ægisgötu sem varð til þess að slá þurfti út rafmagni. Götunni var í kjölfarið lokað.

Reykjanesbraut hefur einnig verið lokuð síðan um fimmleytið í morgun. Engar tilkynningar hafa borist frá Garði vegna vandræða í tengslum við óveðrið.

Í upphafi var aðallega um fokverkefni að ræða, að sögn Ólafs Helga, en eftir klukkan átta fjölgaði verkefnum mjög mikið.

Spurður nánar út í bíla sem fuku við Ásbrú vissi Ólafur Helgi um eiganda bíls sem var að fjúka sem greip til sinna ráða og ekki varð alvarlegt tjón.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, staðfestir að tilkynning hafi borist um að bílar hafi verið að fjúka og segir að þau verkefni hafi verið leyst.

Einnig fóru björgunarsveitarmenn yfir alla bátana í höfnunum á Suðurnesjum til að athuga með stöðuna á þeim. Búið er að festa skipið í Njarðvíkurhöfn.

mbl.is