Björgunarsveit hugar að gámahúsi Landspítala

Björgunarsveitir eru að störfum við Landspítalann í Fossvogi, en þar …
Björgunarsveitir eru að störfum við Landspítalann í Fossvogi, en þar er unnið að því að festa klæðningarplötur á gámahúsum. mbl.is/Eggert

Vaktaskipti á Landspítalanum, stærsta vinnustað höfuðborgarsvæðisins, gengu vel fyrir sig í morgun, en starfsmenn sem voru á morgunvakt voru beðnir um að koma fyrr til vinnu svo þeir sem voru að ljúka næturvakt kæmust örugglega heim til sín áður en rauð veðurviðvörun tæki gildi á höfuðborgarsvæðinu.

„Það mættu allir í hús sem áttu að mæta og allir komust heim sem þurftu ekki að vera áfram,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra spítalans, í samtali við mbl.is. Hún segir að í einhverjum tilfellum muni kvöldvaktin verða kölluð fyrr inn í kvöld, svo morgunvaktir þeirra sem komu snemma verði ekki of langar. 

Björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum við Landspítalann í Fossvogi og unnið að því að tryggja klæðningarplötur á gámahúsum sem spítalinn notast við og segir Anna Sigrún að fylgst sé náið með því hvort frekara foktjón sé að eiga sér stað annars staðar á umfangsmiklum húsakynnum spítalans.

Vaktaskipti á Landspítalanum gengu vel fyrir sig í morgun, en …
Vaktaskipti á Landspítalanum gengu vel fyrir sig í morgun, en starfsmenn sem voru á morgunvakt voru beðnir um að koma fyrr til vinnu. mbl.is/Eggert

Hún segir jafnframt að til þessa hafi veðrið lítil áhrif haft á starfsemi spítalans, en þó hafi þurft að bregðast við því að ekki hafi verið hægt að flytja mat á milli starfsstöðva spítalans vegna veðursins. Áður hafði verið tilkynnt að allir bókaðir tímar á dag- og göngudeildum Landspítala myndu falla niður í dag og þeim sem áttu tíma í dag bent á að endurbóka eftir helgi.

Viðbragðsstjórn Landspítala hefur verið virkjuð bæði við Hringbraut og í Fossvogi og kom saman kl. 5 í morgun til þess að fara yfir stöðu mála vegna stormsins og fylgist grannt með til að tryggja að viðkvæm þjónusta spítalans verði ekki fyrir neinu raski vegna veðursins.

Hér að neðan má sjá tilkynningu frá Landspítala frá því í gær.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert