Fylgjast með þakinu fjúka af

Þakið er að hluta fokið af fjölbýlishúsi við Jörfagrund á …
Þakið er að hluta fokið af fjölbýlishúsi við Jörfagrund á Kjalarnesi. Ljósmynd/Ásta Jónína

Þakplötur hafa fokið af fjölbýlishúsi við Jörfagrund á Kjalarnesi og gæti þakið jafnvel farið af að öllu leyti. Í hverfinu hafa einnig rúður brotnað í húsum og bílum í mestu vindhviðunum. Mælir Vegagerðarinnar á Kjalarnesi datt út fyrr í morgun, en hann hafði sýnt 62 m/s í mestu hviðunum. Íbúi í götunni segist aldrei hafa upplifað annað eins veður.

Ásta Jónína Ingvarsdóttir, íbúi í Jörfagrund 44, sem er staðsett vestan megin við Grundarhvarfsveg og Esjuskálann, hefur verið vakandi frá því snemma í morgun, en klukkan 5 tók hún eftir að þakplötur á nærliggjandi fjölbýlishúsi voru teknar að fjúka af. Lét hún Neyðarlínuna vita, en björgunarsveitir hafa verið á ferli í hverfinu í alla nótt.

Timbur og þakplötur foknar af fjölbýlishúsi við Jörfagrund á Kjalarnesi.
Timbur og þakplötur foknar af fjölbýlishúsi við Jörfagrund á Kjalarnesi. Ljósmynd/Ásta Jónína

„Það hafa þakplötur verið að fjúka af, en stór partur af þakinu sem hangir enn, það er spurning hvenær hann fýkur af,“ segir Ásta í samtali við mbl.is. Hún lýsir því þannig að stór hluti þaksins sé þegar fokinn af og þá hafi einnig stór hluti af þakrennum hússins fokið af eftir að hún tilkynnti um málið í nótt. Segir hún að það sjáist ofan í þakið, en enn er þó það dimmt að erfitt sé að sjá nákvæmar skemmdir.

Ásta segist einnig vita af því að í götunni hafi brotnað rúða í íbúðarhúsnæði sem og í bíl sem stóð við næsta hús. „Þetta eru engar smá hviður. Það er erfitt að lýsa þessu. Maður heyrir bara kröftugan vind og þetta er umfram það sem ég hef upplifað hér áður,“ en Ásta hefur búið á Kjalarnesi í fimm ár. „Þetta er það versta sem ég hef séð hingað til.“

Eftir að ljóst varð í gær að um gríðarlegan hvell væri að ræða og kennsla yrði felld niður segir Ásta að íbúar hafi verið vel meðvitaðir um stöðuna. Sjálf vinnur hún í Klébergsskóla á Kjalarnesi og segir fólk þar hafa verið meðvitað um að búast mætti við miklum vindi og að fólk hafi farið að festa niður það sem gæti fokið.

Björgunarsveitir hafa verið á ferð á Kjalarnesi í nótt og …
Björgunarsveitir hafa verið á ferð á Kjalarnesi í nótt og í morgun, en þar er meðal annars þak að fjúka af fjölbýlishúsi. kort/map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert