Götur borgarinnar svo gott sem auðar

Kringlumýrarbraut, séð frá Bústaðavegi í átt til Hamraborgar, kl. 8:30 …
Kringlumýrarbraut, séð frá Bústaðavegi í átt til Hamraborgar, kl. 8:30 í morgun. mbl.is/Eggert

Nær engin umferð er á götum höfuðborgarsvæðisins þennan föstudagsmorguninn, enda rauð veðurviðvörun í gildi til kl. 11 og búið að brýna fyrir fólki að vera ekki á ferðinni nema það nauðsynlega þurfi.

Öll kennsla í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum höfuðborgarsvæðisins liggur niðri í dag, en leikskólar og grunnskólar eru þó opnir með lágmarksmönnun, sem ætlað er að þjóna þeim foreldrum sem nauðsynlega þurfa á vistun fyrir börn sín að halda – og þá er átt við fólk sem sinnir neyðarþjónustu eins og löggæslu, slökkvistörfum og björgunarsveitaútköllum.

Þá hafa mörg fyrirtæki ýmist ákveðið að hafa lokað fram að hádegi eða veita starfsmönnum sínum tækifæri til þess að vinna heiman frá sér, sé það mögulegt.

Ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins, sem er á meðal þeirra fáu sem eru á ferðinni, tók meðfylgjandi mynd af Kringlumýrarbrautinni í átt til Hamraborgar kl. 8:30 í morgun, en á venjulegum degi væri bíll við bíl í átt að miðborg Reykjavíkur á þessum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert