„Guð hjálpi okkur ef við erum komin á þann stað“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allsherjarverkfall starfsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg hefst á miðnætti á mánudag. Deiluaðilar hafa ekki hist á fundi í þessari viku hjá rík­is­sátta­semj­ara, en fund­ur sem átti að vera á mánu­dag var blás­inn af. Sátta­semj­ari taldi ekki skila ár­angri að funda á þeim tíma­punkti. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar. 

Tveggja og hálfs sólarhringa verkfalli 1.850 Eflingarstarfsmanna hjá borginni lauk í gær en leikskólar störfuðu ekki í dag sökum veðurs og sorphirða í borginni lá niðri fyrir hádegi sömuleiðis vegna veðurs . 

„Við skulum bara sjá hvað gerist á mánudaginn,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is. 

Allsherjarverkfall hefst því að öllu óbreyttu á miðnætti á mánudag, aðfaranótt 17. febrúar. Verkfallsaðgerðirnar eru ótímabundnar og munu að öllu óbreyttu hafa áhrif á vistun allra leikskólabarna í borginni vegna minni þjónustu. Verkfallið hefur áhrif á 1.650 notendur velferðarþjónustu borgarinnar. Eftir því sem verkfallið lengist mun það hafa áhrif á sorphirðu í Reykjavík og aðra umhirðu borgarlandsins.

„Við höfum verið að búa okkur undir það að fara inn í næstu viku og ég held áfram að hitta mína samninganefnd, við erum með fund á morgun. Við munum hitta trúnaðarmenn hjá Reykjavíkurborg aftur á mánudaginn,“ segir Sólveig Anna. 

Segir ummæli formanns samninganefndar borgarinnar með ólíkindum

Harpa Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar borg­ar­inn­ar, sagði í samtli við mbl.is í gær að staðan væri snúin þegar „menn hreyfa sig ekkert heldur“.

Sólveig Anna segir ummæli Hörpu með ólíkindum. „Sannleikur málsins er sá að við erum komin á þennan stað sökum þess að Harpa og samninganefnd borgarinnar og borgarstjóri hafa einmitt ekki viljað hreyfa sig, alla þessa mánuði. Þetta er náttúrulega með ólíkindum að hún skuli leyfa sér að segja þetta.“

Aðspurð hvort hún telji frekari hætta á verkfallsbrotum þegar allsherjarverkfall brestur segir Sólveig ekki svo vera. „Það væri algjörlega til skammar fyrir stjórnendur hjá borginni. Við munum halda áfram að fylgjast með. Um leið og við verðum vör við eitthvað látum við sviðin hjá borginni vita.“ 

Að ráða verktaka væri „tryllingslegt innlegg“

Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu í gær að verktakar sem skrifuðu fréttir á mbl.is á á verk­falli blaðamanna net­miðla stóð 8. nóv­em­ber hafi ekki verið bundnir af verkfallsboðun, þar sem kjör þeirra heyra ekki undir samningi blaðamanna. 

Spurð hvort niðurstaðan seti ákveðið fordæmi, til að mynda hvort Reykjavíkurborg gæti ráðið verktaka í einstök störf, svo sem við þrif skólastofum og leikskólum, á meðan allsherjarverkfallinu stendur segir Sólveig Anna ekki sjá það gerast. 

„Það væri algjörlega tryllingslegt innlegg inn í þessa deilu. Guð hjálpi okkur ef við erum komin á þann stað.“ 

Uppfært klukkan 20:02: Fréttin hefur verið leiðrétt. Upphaflega stóð að deiluaðilar hafi verið boðaðir á fund hjá ríkissáttasemjara klukkan 9 á mánudagsmorgun en hið rétta er að Efling og samninganefnd sveitarfélafélaga funda á þeim tíma, sem er ótengt kjaraviðræðum Eflingar og Reykjavíkurborgar. 

mbl.is