Heitavatnslaust í Rangárþingum og Ásahreppi

Hvolsvöllur á Suðurlandi.
Hvolsvöllur á Suðurlandi. mbl.is/Árni Sæberg

Vegna rafmagnsleysis hjá RARIK er engu heitu vatni dælt frá Laugalandi og Kaldárholti þar sem framleiðsla heits vatns fyrir Rangárveitur á sér stað.

Rangárveitur þjóna Rangárþingi ytra og eystra og Ásahreppi, þar með talið þéttbýliskjörnunum Hellu, Hvolsvelli og Gunnarsholti. Lágur þrýstingur eða heitavatnsleysi er nú á öllu svæðinu, að því er segir í tilkynningu frá Veitum. 

Fólki er bent á að hafa glugga lokaða og dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur til að halda hita á húsum sínum.

Þegar rafmagn kemur aftur á má búast við að töluverðan tíma taki að ná aftur upp þrýstingi í hitaveitunni. Íbúar eru hvattir til að fara afar vel með heita vatnið meðan á því stendur svo það gangi sem hraðast fyrir sig.

mbl.is