„Óþolandi að setja starfsfólk trekk í trekk í þá stöðu“

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/​Hari

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands segir að með hótunum ÍSAL í Straumsvík um að loka álverinu ef raforkuverð verði ekki lækkað sé enn verið að koma í veg fyrir að hægt sé að klára kjarasamninga starfsfólks. „Það er óþolandi að setja starfsfólk trekk í trekk í þá stöðu að vera óvisst um framtíð sína og afkomu. Staða fyrirtækisins og framtíð skiptir máli fyrir fjölda manns og það er líka fjöldi manns sem þarf að taka þátt í samráði um framtíðina, ekki síst fulltrúar starfsfólks,“ segir Drífa í vikupistli sínum.

Vísar hún í samþykktir Evrópuráðs starfsfólks Rio Tinto vegna stöðunnar hjá ÍSAL og Aluchemie í Hollandi og segist taka heilshugar undir þær. Þar er þess meðal annars krafist að fulltrúanefnd allra framleiðslustaða í Evrópu fái afhentar upplýsingar og verði höfð með í ráðum um endurskoðun á rekstri álveranna beggja. Þá er farið fram á að starfsmönnum álveranna verði gefinn kostur á sálfræðiaðstoð vegna þeirrar óvissu sem ríki um störf þeirra auk þess að starfsmenn fái reglulega upplýsingar um hvað bíði þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert