Rauðu viðvaranirnar nauðsynlegar

„Miðað við spána var ekki stætt á öðru en að gera þetta svona,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá Almannavarnadeild, um rautt viðvörunarstig á höfuðborgarsvæðinu í morgun sem hefur haft mikil áhrif á þjóðfélagið. Skólar og sjúkrastofnanir eru á meðal þeirra stofnana samfélagsins sem lokuðu vegna viðvarana. Hann segir að hlýrra sé en gert var ráð fyrir sem hafi hjálpað mikið en ef kaldara hefði orðið þá hefði ófærð orðið meiri.

„Svo hjálpar sannarlega til að það eru mjög fáir á ferli,“ segir Rögnvaldur í samtali við mbl.is um klukkan ellefu í morgun. Hann segir mikinn eril hjá björgunarsveitum sem hafi sinnt yfir 400 verkefnum ásamt því að neyðarlínan hafi fengið annað eins af símtölum sem sé langt umfram meðaltal. Mikill viðbúnaður verði um allt land fram eftir degi.

Rafmagnsleysið í Suðurlandi hafi verið mesta áskorunin til þessa en hann segir búið að finna bilunina sem olli rafmagnsleysinu við Höfn og að gert sé ráð fyrir að koma rafmagni í gang á svæðinu á næstu klukkustundum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert