Stigu ekki feilspor

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hrósar slökkviliði, lögreglu og öðrum viðbragðsaðilum fyrir gott starf í óveðrinu sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið í morgun.

„Að mínu mati hafa slökkvilið, lögregla, aðrir viðbragðsaðilar og síðast en ekki síst björgunarsveitir unnið gríðarlega vel og ekki stigið feilspor,“ skrifar Dagur í vikulegum pistli sínum.

Hann bætir við að enn gæti eitthvað komið upp sem við vitum ekki af, svo sem flóð í kjöllurum eða eignatjón.

Björgunarsveitarmenn að eltast við ruslagám í Hraunbæ í morgun.
Björgunarsveitarmenn að eltast við ruslagám í Hraunbæ í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já, við erum enn og aftur minnt á að við búum í landi þar sem gera þarf ráð fyrir að óblíð náttúra kalli á vel skipulagt viðbragð, góða hlustun og samstöðu. Það finnst mér borgarbúar sannarlega hafa sýnt í dag,“ skrifar hann.

Að sögn borgarstjóra fundaði neyðarstjórn á klukkustundafresti í allan morgun til að taka stöðuna. „Sú mynd sem hefur blasað við mér að er að sviðsstjórar, stjórnendur og starfsfólk sem kallað var til verka í skólum, velferð og annarri framlínuþjónustu borgarinnar hafi staðið sig með endemum vel. Það eru forréttindi að starfa með svona öflugum, ábyrgum og ráðagóðum hópi.“

mbl.is