Sýknuð í Landsrétti af hlutdeild í nauðgun

Húsnæði Landsréttar.
Húsnæði Landsréttar. mbl.is/Hallur Már

Kona var í dag sýknuð í Landsrétti af hlutdeild í nauðgun árið 2016. Hafði konan verið ákærð ásamt kærasta sínum fyrir að nauðga þroskaskertri stúlku með því að hafa gefið henni óþekkta töflu og látið hana reykja kannabisefni sem sljóvgaði stúlkuna. Samkvæmt ákæru málsins var konan talin hafa legið við hlið mannsins og stúlkunnar og fróað sér meðan nauðgunin átti sér stað.

Meðan málið var tekið fyrir í héraðsdómi lést maðurinn og var ákæran gegn honum þar af leiðandi felld niður. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að konan væri sek af hlutdeild í nauðgun og var hún dæmd í tveggja ára fangelsi, en sem fyrr segir sneri Landréttur þeirri niðurstöðu við með dómi sínum í dag.

Konan sagði fyrir héraðsdómi að kynmök kærasta síns og stúlkunnar hafi verið með vilja beggja og að hún hafi ekki gert sér grein fyrir ungum aldri stúlkunnar eða því að hún væri þroskaskert. Héraðsdómur taldi að ósamræmis gætti í framburði konunnar og að hann væri lítt trúverðugur og þá studdist dómurinn líka við mat sálfræðings.

Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að framburður stúlkunnar hafi verið misvísandi meðal annars um töfluna sem henni átti að hafa verið gefin.Er því talið ósannað að konan hafi gefið stúlkunni „einhverja þá töflu sem hafi leitt til þess að hún hafi orðið mjög sljóvguð eftir.“

Þá séu aðeins orð stúlkunnar til staðar um að konan hafi fróað sér meðan maðurinn hafi átt samfarir við stúlkuna. Konan hefur hins vegar neitað fyrir þetta og verður þetta atriði því talið ósannað að því er segir í dómi Landsréttar. Eftir stendur því aðeins hvort konan hafi gerst sek í hlutdeild í nauðgun með því að hafa horft á meðan brotið átti sér stað. Aðeins er hægt að sakfella fyrir hlutdeild í nauðgun ef hægt er að færa sönnur á að ákærða hafi veitt liðsinni til nauðgunarinnar í orði eða verki. Þar sem ekki var sannað að hún hafi veitt stúlkunni töfluna þá stendur eftir hvort hún hafi fengið hana til verknaðarins, en stúlkan hafði sagt lögreglu að maðurinn hafi haft samband við sig, boðið sér heim og látið aka sér þangað. Verður konan því ekki sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgun á grundvelli athafnaleysis ða hafa horft á samskipti mannsins og stúlkunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert