Veðrið að ná hámarki á sunnanverðu landinu

Björgunarsveitarmenn að störfum í Hafnarfirði í morgun.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Hafnarfirði í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óveðrið sem nú gengur yfir landið er að ná hámarki um sunnanvert landið þessa stundina og hefur víða orðið mjög hvasst eins og á Kjalarnesi og í Vestmannaeyjum. Hefur vindur víða á Suðurlandi mælst yfir 25 m/s í jöfnum vindi og á Hellu fór hann upp í 33 m/s í morgun. Á höfuðborgarsvæðinu hefur jafn vindur einnig verið 26-29 m/s á nokkrum stöðum og hviður upp í 35 m/s.

Tekur að lægja milli 11 og 12

Búast má við að upp úr ellefu taki veður að lægja meðfram suðurströndinni og á milli 11 og 12 í höfuðborginni. Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að það muni gerast nokkuð hratt, en að sama skapi muni vindur aukast á láglendi norðan- og norðaustanlands.

Daníel segir veðurhæðina þegar hafa náð hámarki á Vestfjörðum og Norðvesturlandi og sé víða bálhvasst þar.

Á Norðurlandi byrjar veðrið að ganga niður síðdegis, en á Vestfjörðum ekki fyrr en í kvöld. Gert er ráð fyrir að hríðinni fari að slota á Austurlandi á milli sex og níu í kvöld auk þess sem hláni á láglendi.

Í Vestmannaeyjum hefur veðrið verið mjög slæmt í nótt og …
Í Vestmannaeyjum hefur veðrið verið mjög slæmt í nótt og í morgun. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Spáin að mestu gengið eftir

Hann segir spá Veðurstofunnar hingað til að mestu hafa gengið eftir. Þó hafi verið spáð meiri snjókomu á höfuðborgarsvæðinu, en hún hafi ekki skilað sér og nú hafi hlýnað nokkuð þannig að úrkoma verði í formi rigningar en ekki snjókomu. Að öðru leyti segir hann Veðurstofuna hafa hitt nokkuð í mark varðandi vindaspá. Hafi þau horft til um og jafnvel yfir 30 m/s á höfuðborgarsvæðinu, sem sjaldan verði, og það hafi skilað sér.

Sem dæmi mælast 28 m/s á Kjalarnesi og á Hólmsheiði og Geldinganesi 26-27 m/s. Þá hafi í hviðum mælst á Kjalarnesi klukkan sjö í morgun 56 m/s og mælir á Skrauthólum á Kjalarnesi fokið. Daníel segir hins vegar að hviðustuðullinn sé ekkert rosalega hár í þessu veðri sunnanlands, enda sé oftast byljóttast við fjöll og í austanáttinni sem nú gangi yfir eigi það við um staði vestanmegin við fjöll. Á höfuðborgarsvæðinu sé því mun byljóttara í norðanátt þegar vindur komi af Esjunni.

Þakið er að hluta fokið af fjölbýlishúsi við Jörfagrund á …
Þakið er að hluta fokið af fjölbýlishúsi við Jörfagrund á Kjalarnesi. Ljósmynd/Ásta Jónína

Viðvörunarstig byggist ekki á stöðu í stöku hverfum

Mbl.is hafa borist nokkrar ábendingar í morgun frá íbúum á höfuðborgarsvæðinu sem segi veðrið ekki það slæmt að það kalli á rauða viðvörun. Daníel segir að ekki sé hægt að horfa á stöðuna í einu og einu hverfi þegar þetta sé metið, heldur þurfi að horfa á svæði í heild. „Við bjuggumst við foktjóni innanbæjar og það hefur verið að skila sér. Þó að sum hverfi verði ekki fyrir því þá er kerfið byggt upp þannig að höfuðborgin er öll saman sem eitt spásvæði. Við getum því ekki tekið út fyrir sviga eitt og eitt hverfi,“ segir hann og bætir við: „Við spáðum vindi upp að 30 m/s og hann hefur sjaldnast orðið það mikill, en vindurinn er að skila sér.“

mbl.is