Víða lokað vegna veðurs

Þá hefur þjónusta ýmissa opinberra stofnana legið niðri.
Þá hefur þjónusta ýmissa opinberra stofnana legið niðri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmis starfsemi hefur legið niðri á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu í morgun. Skólahald hefur nánast alfarið legið niðri, og það á öllum skólastigum, frá leikskóla upp í háskóla.

Þá hefur þjónusta ýmissa opinberra stofnana legið niðri. Þar má sem dæmi nefna embætti sýslumanna, Þjóðskjalasafn Íslands, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá Íslands. Sums staðar verður opnað um eða eftir hádegi, en annars staðar ekki. Skrifstofa Landsréttar er lokuð til klukkan 13.

Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið lokaðar en opna klukkan þrjú síðdegis. Þá eru söfn borgarinnar lokuð en Borg­ar­bóka­safnið, Land­náms­sýn­ing­in og Ljós­mynda­safn Reykja­vík­ur opna klukkan þrjú ef veður leyfir.

Ýmsar verslanir gripu til þess ráðs að loka eða opna síðar vegna óveðursins. Þeirra á meðal eru verslanir Krónunnar, Nettó og Iceland, en þær opna allar á hádegi. Opið er í Bónus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert