Barnasýningar í fyrirhuguðu verkfalli

Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu.
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu. mbl.is/Golli

„Auðvitað vonum við að þessi deila leysist sem allra fyrst,“ er haft eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni þjóðleikhússtjóra, „en við ákváðum að vera tilbúin ef til verkfalls kemur og bjóða upp á sýningar fyrir börn með lækkuðu miðaverði.“

Fyr­ir­hugað alls­herj­ar­verk­fall fé­lags­manna Efl­ing­ar sem starfa hjá Reykja­vík­ur­borg hefst á miðnætti aðfar­anótt mánu­dags 17. fe­brú­ar. 

Áfram verða áhrif verk­fallsaðgerða Efl­ing­ar mest á leik­skól­ana auk mat­arþjón­ustu í grunn­skól­um. Þeim börnum sem fá vist­un í leik­skól­um verður skipt upp í hópa og er sums staðar hafður sá hátt­ur á að einn hóp­ur fær vist fyr­ir há­degi og ann­ar eft­ir há­degi eða skipt niður á daga vik­unn­ar.    

„Það getur verið dýrmætt að fá tækifæri til að gera eitthvað óvenjulegt og skemmtilegt með börnunum á svona tímum, og því ákváðum við að taka til sýninga eina af barnasýningunum okkar, Ómar Orðabelg. Sýnt verður í Kúlunni kl. 13:00 alla næstu viku, frá og með þriðjudegi, ef af verkfalli verður. Vegna aðstæðna lækkum við miðaverð og kostar miðinn aðeins 1.000 krónur,“ er enn fremur haft eftir Magnúsi.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. Ljósmynd/Aðsend

Sem fyrr segir munu sýningar hefjast þriðjudaginn 18. febrúar kl. 13, ef verkfallsaðgerðir standa enn. Ef deilan leysist verða sýningar felldar niður, og gestir fá ónotaða miða endurgreidda eða geta nýtt þá sem inneign á aðrar sýningar á tíma sem hentar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert