Ert þetta þú Elma Lísa?

Elma Lísa Gunnarsdóttir var fyrirsæta hjá Martie Dekkers þegar hann …
Elma Lísa Gunnarsdóttir var fyrirsæta hjá Martie Dekkers þegar hann myndaði vetrartískuna árið 1986. Hún var þá tólf ára. Hann kom til Íslands um daginn og urðu endurfundir hjá þeim. Martie sýndi Elmu Lísu gamlar myndir og greinar og rifjuðu þau upp skemmtilegar minningar. mbl.is/Ásdís

Hollenski listhönnuðurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og ljósmyndarinn Martie Dekkers kom hingað fyrst árið 1986 til að mynda íslensk ungmenni fyrir evrópska vetrartísku. Ein fyrirsætanna var Elma Lísa Gunnarsdóttir, leikkona, sem þá var tólf ára. Dekkers kom til landsins um daginn og bað Morgunblaðið að hafa upp á Elmu Lísu sem hann mundi vel eftir. Það var auðsótt mál og hittust þau á ný, 34 árum eftir tískuverkefnið mikla. Svo sannarlega urðu það skemmtilegir endurfundir.

Einhverja hluta vegna mundi Dekkers sérlega vel eftir henni en hún var aðeins tólf ára vorið 1986. Dekkers hringdi í blaðamann og bað hann um að hafa upp á Elmu Lísu; hann langaði svo að hitta hana aftur. Hann hafði ekki hugmynd um að hún væri landsþekkt leikkona en var ekki hissa á að hún hefði náð langt á sínu sviði.

Elma Lísa var flott fyrirsæta strax tólf ára gömul. Hún …
Elma Lísa var flott fyrirsæta strax tólf ára gömul. Hún skemmti sér vel yfir þessum gömlum myndum sem Dekkers kom með til landsins á dögunum. Ljósmynd/Martie Dekkers

Blaðamaður hringdi í Elmu Lísu og bar upp erindið sem henni þótti að vonum frekar skondið. Hún var til í endurfundina og mættum við því upp á hestabúgarðinn Laxnes, þar sem Dekkers var staddur hjá vinum.

Má ég faðma þig?

Það blés hressilega þegar við stigum út úr bílnum við Laxnes og rigningin barði á okkur. Reffilegur maður á sjötugsaldri, með hrokkið hár og gleraugu, rauk út á hlað á móti okkur.

„Ert þetta þú Elma Lísa! Má ég fá að faðma þig?“ segir Dekkers og Elma Lísa, hálfringluð yfir þessum endurfundum, tók á móti stóru faðmlagi.

Það fór vel á með Martie Dekkers og Elmu Lísu …
Það fór vel á með Martie Dekkers og Elmu Lísu sem ekki höfðu sést í 34 ár. mbl.is/Ásdís

Dekkers ljómaði af gleði að hitta Elmu Lísu aftur eftir meira en þrjá áratugi.

„Þú hefur ekkert breyst!“ segir Dekkers við Elmu Lísu.

„Ekki þú heldur,“ svarar hún brosandi.

„Ég man svo vel eftir þér; þú varst svo opin og alls ekki feimin. Ég man ég hugsaði; „þarna er stúlka með metnað, hún mun ná langt“. Þetta var mín fyrsta upplifun af þér, ég get svarið það! Hvað finnst þér um það?“ spyr hann Elmu Lísu.

„Það er gaman að heyra. Ég man mér fannst mjög gaman að taka þátt í þessu; ég skemmti mér vel.“

Fyrirsætuferillinn hófst

Dekkers dregur fram myndir og sýnir Elmu Lísu. „Þetta var fyrir tískumerkið Barbara Farber, sem var hágæðatíska á þessum tíma. Ég tók allar myndir og hannaði allt saman, en á þessum tíma var ekkert photoshop,“ segir hann.

Bláir og grænir litir voru í tísku veturinn 1986-7. Íslensku …
Bláir og grænir litir voru í tísku veturinn 1986-7. Íslensku krakkarnir skemmtu sér vel við tökurnar. Elma Lísa er hér til vinstri. mbl.is/Ásdís

„Ég man vel eftir að hafa farið á Hótel Sögu og man eftir öllum krökkunum sem biðu þar, um fimm hundruð krakkar. Við vorum þarna þrjár systur og mamma var með. Svo vorum við tvær eldri valdar en sú yngsta ekki, en hún var bara sex ára. Það var smá sorg hjá henni.“

„Æ, í alvöru, skildi ég hana eftir út undan? Ég var svo harður, maður þurfti að vera það á þessum tíma og í þessum bransa. En þetta voru allt yndislegir krakkar!“

Heiður að vinna á Íslandi

Skyggnurnar úr myndatökunum urðu eftir hjá blaðamanni. Dekkers vill endilega koma þeim í réttar hendur. Þannig er hægt að hafa samband við blaðamann ef einhver sem var í þessum myndatökum vill fá að eiga mynd af sér í vetrartískunni 1986-7.

 „Þetta hefur tilfinningalegt gildi fyrir mig, að koma hingað og hitta ykkur og skila þessum myndum. Ef ég lít til baka þá er ég þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri að koma hingað, það var mikill heiður að fá að vinna með íslenskum börnum. Ég mun aldrei gleyma því. Því langar mig að skila myndunum aftur til síns heima,“ segir hann.

Elma Lísa skoðaði tískubæklinga frá 1986.
Elma Lísa skoðaði tískubæklinga frá 1986. mbl.is/Ásdís

Greinin í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert