Kokkáll á hvíta tjaldið

Kristín Eysteinsdóttir og Dóri DNA hlakka til að sjá skáldsöguna …
Kristín Eysteinsdóttir og Dóri DNA hlakka til að sjá skáldsöguna Kokkál verða að veruleika á hvíta tjaldinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Um leið og ég las bókina varð ég gagntekin af henni, enda sterk samtímasaga sem er að takast á við spennandi viðfangsefni. Ég ýmist grét eða hló þegar ég las hana og hélt að lestri loknum sífellt áfram að hugsa um persónur bókarinnar sem eru mjög vel skrifaðar og djúpar. Bókin er drifin áfram jafnt af persónunum og sterkum kringumstæðum sem hentar mjög vel fyrir kvikmyndaformið,“ segir Kristín Eysteinsdóttir sem mun leikstýra kvikmynd sem byggist á skáldsögunni Kokkáll eftir Dóra DNA.

Blaðamaður settist niður með Kristínu, Dóra DNA og Steinari Loga Nesheim, framleiðanda myndarinnar, fyrr í vikunni eftir að þau ásamt Pétri Má Ólafssyni, útgefanda Bjarts & Veraldar, höfðu skrifað undir samning um gerð kvikmyndarinnar upp úr skáldsögunni sem framleiðslufyrirtækið Polarama framleiðir. Viðtalið birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Fjallar um vestrænan sársauka

„Um leið og bókin kom út fór fólk sem vildi skoða kvikmyndaréttinn að hafa samband við mig. Þegar Kristín hringdi í mig var augljóst að hún brann langmest fyrir þessu verkefni,“ segir Dóri DNA og bendir á að sem höfundur hafi bókin heltekið huga hans í hálft annað ár. „Af þeim sökum vil ég auðvitað fá í verkefnið einhvern sem brennur jafnmikið fyrir þessu og ég,“ segir Dóri DNA og viðurkennir að hann sjái bókina ekki jafnskýrt fyrir sér sem kvikmynd eins og Kristín. „En hún sér það og ég treysti hennar mati. Ég held að persónur og hugðarefni bókarinnar eigi farveg að fólki. Hún fjallar um vestrænan sársauka og heim þar sem við erum sífellt að leita að vatni til að slökkva þá elda sem við höfum sjálf kveikt. Af þeim sökum held ég að sagan tali beint inn í hjarta margra,“ segir Dóri DNA.

„Mig langar að framleiða sögur sem ég brenn fyrir og þegar ég las þessa bók sá ég strax að mig langaði til að vera partur af þessu teymi. Það draumur framleiðanda að fá tækifæri til að vinna með Kristínu og Dóra DNA,“ segir Steinarr Logi framleiðandi sem stýrir hinu nýstofnaða framleiðslufyrirtæki Polarama. Steinarr Logi hefur starfað hjá Sagafilm og meðal annars séð um framleiðslu sjónvarpsþáttanna Thin Ice sem hefja göngu sína á RÚV annað kvöld.

Krefjandi verkefni

„Það verður krefjandi verkefni fyrir okkur að koma þessari sögu og karakterum til skila á hvíta tjaldinu,“ segir Steinarr Logi og Dóri DNA tekur undir það. „Sagan gerist í tveimur löndum, þ.e. Íslandi og Bandaríkjunum, og á tveimur ólíkum tímum, þ.e. í nútímanum og um síðustu aldamót. Það hversu mikið vægi ólík lönd og tímar fá hefur auðvitað áhrif á hvað myndin kostar að endingu. Bókin er 334 síður og því ljóst að það þarf að skera efniviðinn niður,“ segir Dóri DNA og tekur fram að hann sé feginn að þurfa ekki að sjá um þann niðurskurð.

„Nú hefst þróunarvinnan við að færa söguna úr einu listformi í annað,“ segir Steinarr Logi og tekur fram að hann sé sannfærður um að Kokkáll muni tala sterkt til fleiri en Íslendinga. „Ísland er ekki lengur lokað mengi. Í dag er heimurinn vettvangurinn sem verið er að þróa fyrir og gæðakröfurnar eftir því. Við vitum að við erum að fara að framleiða kvikmynd sem á heima á alþjóðamarkaði,“ segir Steinarr Logi. „Það eina sem er séríslenskt í bókinni er nöfnin og kennileitin. Ég held að tilfinningarnar séu mjög alþjóðlegar, sérstaklega hér á Vesturlöndum,“ bætir Dóri DNA við.

Pétur Már Ólafsson, útgefandi Bjarts & Veraldar sem gaf út …
Pétur Már Ólafsson, útgefandi Bjarts & Veraldar sem gaf út Kokkál, Dóri DNA höfundur, Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri og Steinarr Logi Nesheim, framleiðandi hjá Polarama sem framleiðir myndina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín hefur góða reynslu af því að leikstýra í leikhúsi og því liggur beint við að spyrja hvernig það leggist í hana að skipta um miðil og leikstýra sinni fyrstu kvikmynd. „Þetta hefur lengi verið draumur hjá mér, enda hefur mig langað til að endurnýja mig sem listamann og takast á við nýjar áskoranir. Í grunninn snýst þetta auðvitað um það sama, að brenna fyrir sögunum sem mig langar að segja og miðla þeim. En ég hef lengi verið að leita að sögunni sem mig langaði að segja og réttaframleiðandanum. Ég lít á það sem mikið tækifæri og áskorun að stíga inn á þennan vettvang með leikhúsreynsluna í farteskinu. Í grunninn drífa persónurnar söguna áfram og því kallar það á góða leikaraleikstjórn,“ segir Kristín og bætir við að sér þyki líka spennandi að vinna í öðru tempói en áður.

„Sem leikhússtjóri hef ég stýrt leikhúsi þar sem við frumsýnum 12 nýjar sýningar á ári með tilheyrandi hraða. Mér finnst ótrúlega spennandi að stíga inn í þróunarferli sem tekur nokkur ár. Eftir margra ára vinnu í leikhúsinu finnst mér spennandi að fara í annan rytma,“ segir Kristín.

Lengi verið aðdáandi Kristínar

„Ég treysti Kristínu ákaflega vel fyrir þessu verkefni, því drama og vinnan með leikurunum er númer eitt. Reynslan sem Kristín býr yfir sem leikstjóri og getan til að fara í djúpa leikaravinnu er ómetanleg í kvikmyndum,“ segir Dóri DNA og ítrekar að hann ætli ekki að vera með puttana í ferlinu. „Ég óttast sjálfan mig ef ég væri eitthvað að skipta mér af. Ég vel að treysta þeim fullkomlega fyrir verkefninu og þau gera sitt verk á sínum forsendum. Kristín og Steinarr eru ekki að fara að myndskreyta mitt verk heldur búa til sitt eigið verk,“ segir Dóri DNA.

„Sem framleiðandi er gríðarlega spennandi og áhugavert að fá að fara í þennan leiðangur með Kristínu og bakka hana upp sem listamann. Ég hef lengi verið aðdáandi hennar og hef gríðarlega trú á henni,“ segir Steinarr og bætir við að sú ákvörðun að sækjast eftir réttinum til að kvikmynda Kokkál hafi verið sér auðveld þar sem bókin sé „stórkostleg og Kristín hefur mikla framtíð fyrir sér sem kvikmyndaleikstjóri“.

Kristín mun sjálf vinna að þróun handritsins í samvinnu við fleiri. „Næsta skref er að fara í þá vinnu og ákveða hvað við viljum leggja áherslu á í dramatúrgískri nálgun og uppbyggingu handritsins. Bókin er allt í senn ástarsaga og þriller. Hún fjallar líka um karlmennskuna, tengsl og tengslaleysi, þörfina fyrir að tilheyra öðrum og áhrif kynslóðanna á þá næstu. Mér finnst þetta því mannleg og mikilvæg saga,“ segir Kristín. 

Vill hætta fyrr hjá Borgarleikhúsinu

Kristín upplýsti í færslu á Facebook-síðu sinni á fimmtudag að hún hefði óskað eftir starfslokum við stjórn Borgarleikhússins og beðið um að nýr leikhússtjóri tæki við keflinu fyrr en áætlað var. Sagði hún ástæðuna meðal annars vera þá að hún stæði „frammi fyrir einstöku tækifæri til að takast á við verkefni sem mig hefur alltaf dreymt um, leikstjórn á kvikmynd og þróun þess verks frá fyrstu stigum“. Kristín gaf engar upplýsingar í færslunni um hvaða verkefni væri að ræða, en það upplýsist í Morgunblaðinu í dag. Í gær tilkynnti stjórn Borgarleikhússins að hún hefði ráðið Brynhildi Guðjónsdóttur sem nýjan leikhússtjóra. 

mbl.is