RÚV útskýrir ráðningu Stefáns

Ríkisútvarpið birti ítarlega útskýringu á ráðningarferli og ráðningu Stefáns Eiríkssonar, nýráðins útvarpsstjóra, á vef sínum í gær. Þar er valið skýrt en það hefur verið gagnrýnt harðlega, meðal annars af öðrum umsækjendum um starfið. 

Áður hafði Ríkisútvarpið neitað Kristínu Þorsteinsdóttur, fyrrverandi ritstjóra og umsækjanda um starfið, um rökstuðning vegna ráðningarinnar. Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi ráðherra og umsækjandi um stöðu útvarpsstjóra, bað einnig um rökstuðning en hefur ekki fengið svör.

Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður, var einnig á meðal umsækjenda en þeir voru 41 talsins. Ólína sagði í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins sem kom út í dag að við ráðninguna hefði verið gengið fram hjá mörgum konum sem voru ívið hæfari en Stefán. 

„Samt er það er megininntak jafnréttislöggjafarinnar að ef karl og kona eru jafnhæf í starf skuli ráða konuna ef konur eru í minnihluta á viðkomandi starfsvettvangi. Karlinn þyrfti, lögum samkvæmt, að hafa mikla yfirburði til þess að vera tekinn fram yfir hæfa konu. Þarna sóttu um konur sem ég fullyrði að voru margar hæfari en sá sem ráðinn var, engin þeirra virðist hafa komið til álita hjá pólitískt skipaðri stjórn Ríkisútvarpsins.“

Kusu ekki um stöðuna

Ólína hlaut sjálf 20 milljónir í bætur vegna þess að gengið var fram hjá henni við skipan þjóðgarðsvarðar árið 2018. 

Í rökstuðningi Ríkisútvarpsins er tekið fram að samhljóða niðurstaða stjórnar fyrirtækisins hafi verið að ráða Stefán. Ekki hafi verið kosið um það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert