Telur brottvísun ógna lífi transdrengsins

„Ég myndi telja að fyrir sautján ára transstrák væri ekki …
„Ég myndi telja að fyrir sautján ára transstrák væri ekki lífvænlegt að fara til Íran,“ segir Ugla Stefanía. Ljósmynd/Sharon Kilgannon

„Transfólk getur einfaldlega ekki verið það sjálft í Íran án þess að verða fyrir grófu ofbeldi eða jafnvel vera myrt. Íran er mjög hættulegur staður fyrir transfólk og fyrir hinseginfólk yfir höfuð,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Ísland. 

Tilefni samtals blaðamanns og Uglu er fyrirhuguð brottvísun 17 ára gamals transdrengs og fjölskyldu hans. Drengurinn, Maní, kom út sem transdrengur eftir að hann flúði með fjölskyldu sinni til Íslands fyrir tæpu ári síðan.

„Ég myndi telja að fyrir sautján ára transstrák væri ekki lífvænlegt að fara til Íran. Ofan á það kemur svo allt hitt sem fjölskyldan er að ganga í gegnum. Þetta myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir fjölskylduna og fyrir hann.“

Brot á barnasáttmálanum

Ugla segir stöðu hinseginfólks í Íran vera erfiða og skrýtna, þannig eru samkynhneigðir karlmenn gjarnan sendir í kynleiðréttingaraðgerðir gegn vilja sínum en transfólk á sjálft erfit með að sækja sitt kynleiðréttingarferli í landinu.

„Transfólk sjálft hefur engin tök á að gera það sem það vill.“

Aðspurð segir Ugla að það komi henni í opna skjöldu að vísa eigi Maní og fjölskyldu hans úr landi þar sem augljóst sé að lífi hans sé ógnað í Íran. 

„Þetta er náttúrulega brot á barnasáttmála. Hann er enn þá sautján ára svo þetta er klárlega brot á hans mannréttindum. Mér finnst mjög mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í og tryggi að hann verði ekki sendur þangað sem hann verður jafnvel bara drepinn eða verður fyrir gríðarlegum fordómum og útskúfun.“

Ugla þekkir transfólk frá Íran sem hefur þurft að flýja þaðan. 

„Allt transfólk sem ég þekki sem er frá Íran hefur þurft að fara þaðan þar sem þau hafa ekki getað verið þau sjálf í Íran.“

Mæður transbarna hafa efnt til mótmæla fyrir utan dómsmálaráðuneytið klukkan þrjú á morgun. Samtökin No Borders Iceland hvöttu fólk í dag til þess að láta í sér heyra og senda Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, tölvupóst þar sem andstöðu við fyrirhugaða brottvísun er lýst. 

mbl.is