Forréttindi að fylgjast með samfélaginu af þessum stað

„Mig óraði nú ekki í eitt augnablik fyrir að málin …
„Mig óraði nú ekki í eitt augnablik fyrir að málin yrðu 4.885, manni datt það varla í hug, en hitt var kannski auðveldara að sjá fyrir sér,“ segir Markús Sigurbjörnsson, sem skipaður var hæstaréttardómari 1. júlí 1994, þá á fertugasta aldursári. mbl.is/RAX

Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, segist ekki vera viss um að leyst hafi verið rétt úr þeim vandamálum sem leiddu til stofnunar Landsréttar. Rætt er við Markús í sérstöku aukablaði sem fylgdi Morgunblaðinu í gær í tilefni af 100 ára afmæli réttarins sem er í dag.

Markús nefnir m.a. að ráðast hefði þurft að rót þess álags sem hvíldi á Hæstarétti. „Það eitt að taka kassann í fangið og bera út í næsta hús leysir ekki neitt. Enda sýnir reynslan af Landsrétti, sem starfað hefur í tvö ár, að þar er strax kominn málahali,“ segir Markús. 

Markús lét af störfum í október síðastliðnum eftir að hafa starfað sem hæstaréttardómari í rúm 25 ár. Á þeim tíma dæmdi Markús í 4.885 málum. Morgunblaðið ræddi við Markús í tilefni af hundrað ára afmæli Hæstaréttar, sem er í dag, og fór yfir feril hans í dómnum þar sem hann dæmdi í tæplega 5.000 málum.

„Ég held að ég hafi ákveðið það átta eða níu ára gamall að mig langaði til að fara í lögfræði,“ segir Markús spurður um upphaf lögfræðiáhugans. „Faðir minn var ekki lögfræðingur sjálfur og ekki móðir mín heldur, en hins vegar kynntist maður barn að aldri vinum þeirra sem voru menntaðir lögfræðingar,“ segir Markús, en viðurkennir um leið að þá hafi hann lítið vitað af þeim fjölbreyttu störfum sem lögfræðingar sinna. „Einhvern veginn sat í mér að þetta væri það sem mig langaði til að gera, og ég komst aldrei upp úr því fari.“

Eftir að Markús útskrifaðist úr Menntaskólanum við Tjörnina lá því beinast við að fara í laganám. Þar komst hann fljótt að því hvert hugur sinn stefndi innan lögfræðinnar. „Á þeim tíma þurftu laganemar að „afplána“ tveggja mánaða skylduvinnu við lögfræðistörf að loknu öðru námsárinu af fimm. Ég hóf störf hjá bæjarfógetanum í Keflavík um sumarið, og endaði á að vera þar í þrjátíu mánuði í stað tveggja,“ segir Markús.

Sú reynsla gaf Markúsi margt. „Þar kynntist ég í raun lögfræðistörfum og má segja að maður sá allt í einu allt annan enda á þessu en maður fékk með því að sitja og lesa bækur. Þetta gerði það meðal annars að verkum að ég sat afar lítið kennslustundir á þriðja og fjórða námsárinu í lagadeild, því þetta var í raun eins og verknám,“ segir Markús og bætir við að þegar svo kom að próflestri hafi hann þá allt í einu séð hvað bækurnar höfðu að segja um það sem hann hafði kynnst af eigin raun. „Það var mjög sérstakt og gerði þetta allt meira lifandi. Maður greip betur gildi og tilgang fræðikenninganna þegar maður var búinn að vinna og sjá raunhæfu vandamálin sem nú var hægt að setja í þetta fræðilega samhengi sem allt gekk út á.“

Á þeim tíma var ekki búið að skilja að framkvæmdarvald og dómsvald í héraði. „Bæjarfógetaembættið var eins og þetta var á þeim tíma, nánast blanda af því sem er í dag sýslumannsembætti og héraðsdómur, og við það bættist skattheimta og útibú Tryggingastofnunar, jafnvel tollgæsla. Þannig að þetta var afskaplega fjölbreytt, og raunar ótrúlegt hvað kom upp af skrítnum vandamálum,“ segir Markús.

Markús Sigurbjörnsson var skipaður í Hæstarétt 1. júlí 1994. Hann …
Markús Sigurbjörnsson var skipaður í Hæstarétt 1. júlí 1994. Hann sat þar í 25 ár og hafði umtalsverð áhrif á íslenskt réttarfar. mbl.is/RAX

Hliðarspor úr dómstólum í Háskólann

Markús lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1979 og hélt sama ár til framhaldsnáms í einkamálaréttarfari við Det Retsvidenskabelige Institut við Kaupmannahafnarháskóla og var þar í tæp tvö ár. Markús sneri svo heim árið 1981 og hóf störf hjá borgarfógetanum í Reykjavík og var þar til ársins 1988.

Markús hóf stundakennslu í lögfræði við Háskóla Íslands árið 1984, sem vatt fljótlega upp á sig. „Eftir þrjú til fjögur ár af stundakennslunni var ég nánast kominn með fangið fullt af kennslu, og það orðið að fullu starfi.“ Það var því að hrökkva eða stökkva og úr varð að Markús var skipaður prófessor í réttarfari við lagadeildina. Markús segir bakgrunn sinn bæði í námi og starfi hafa fallið vel að því fræðasviði.

„Þetta var nauðalíkt því sem ég var að fást við áður, það er réttarfar, sem er í raun um málsmeðferð fyrir dómstólum, fullnustu dóma og svo allt þetta kerfi, gjaldþrotaskipti, dánarbússkipti og svo framvegis. Fræðistörfin í Háskólanum voru því nokkuð vægt hliðarspor frá dómstólunum, því ég hélt áfram að sinna því sem ég hafði gert þar, bara nú frá fræðilegu hliðinni.“

Skömmu eftir að Markús varð prófessor féll honum í skaut það verkefni að í raun gjörbreyta íslensku réttarfari með aðskilnaði framkvæmdarvalds og dómsvalds. „Það voru hamfarir í Strassborg,“ segir Markús kíminn á svip, en í október 1987 komst mannréttindanefnd Evrópuráðsins að þeirri niðurstöðu að mál manns, sem hafði verið dæmdur fyrir umferðarlagabrot hjá bæjarfógetanum á Akureyri, væri tækt til efnismeðferðar, þar sem bæjarfógetinn var jafnframt yfirmaður lögreglunnar sem rannsakaði málið.

„Það var alveg ljóst að það þurfti að bylta þessu kerfi,“ segir Markús en bætir við að ekki hafi verið eining um þær breytingar sem þurfti að gera. „Eins og alltaf vill verða, að þeir sem eru starfandi í þessu umhverfi vilja kannski ekki alltaf sjá breytingar á sínu lífi og það var þungur róður á köflum.“

„Það var bæði pólitískur vilji til að gera þessar breytingar og ekki síður var það óumflýjanlegt og þá var vandinn bara sá að koma þessu saman þannig að kerfið gengi upp. Þetta var heilmikil vinna sem stóð frá 1988 til 1992,“ segir Markús, en vinna hans fólst í að semja lagafrumvörp sem afgreidd voru eitt af öðru, en aðskilnaðurinn tók fullt gildi 1. júlí 1992.

Aðbúnaðurinn verri í upphafi

Markús var skipaður hæstaréttardómari 1. júlí 1994, þá á fertugasta aldursári. En sá hann þá fyrir sér að hann myndi sitja í rúmlega 25 ár, og dæma í 4.885 málum? „Mig óraði nú ekki í eitt augnablik fyrir að málin yrðu 4.885, manni datt það varla í hug, en hitt var kannski auðveldara að sjá fyrir sér.“ Markús rifjar upp að Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri hafi heimsótt sig til að afhenda skipunarbréfið. „Þegar hann afhenti mér þetta, þá hafði ég á orði að nú myndi hefjast „afplánun“ mín á 25 árum, tveimur mánuðum og 24 dögum, sem var tíminn frá skipuninni að afmælisdegi mínum nú á síðasta ári. Ég gekk bara út frá því að yrði manni lífdaga auðið, þá yrði þetta það jarðarmen sem ég þyrfti að ganga undir.“

Markús segir að bakgrunnur sinn í réttarfari, bæði úr fógetaembættunum og Háskólanum hafi reynst sér vel. „Þegar maður fer að vinna í þessu á þennan hátt þá skynjar maður hvað það hefur raun mikið að segja til að létta manni lífið að vera með fræðilegan bakgrunn líka af þessu sviði lögfræðinnar, því að það þarf að máta hvert einasta mál sem kemur upp við reglur um málsmeðferð. Þetta er sú grein sem hvað virkast reynir á í daglegum störfum dómara.“

Spurður um tilfinninguna þegar hann hóf að dæma sín fyrstu mál í Hæstarétti segir Markús hana hafa verið sérstaka. „Ég hafði aldrei hlustað á málflutning í Hæstarétti fyrr en ég settist þar sem dómari. Ég hafði aldrei komið þangað sem áheyrandi, sem er nokkuð sérstakt, því að maður hefði haldið að einhvern tímann á lífsleiðinni yrðu mál sem maður vildi heyra eða að ég myndi fara þangað með nemendur mína, en það artaðist bara ekki svo.“ Markús segir það hafa því verið nokkur viðbrigði að sitja í fyrstu málunum frá því sem hann var vanur úr fyrri störfum.

Þegar Markús hóf störf sem dómari var ekki búið að reisa núverandi hús Hæstaréttar, heldur sat rétturinn í gamla dómhúsinu við Lindargötu, sem þá hafði verið í notkun frá árinu 1949. Markús segir aðstæður þar ekki hafa verið upp á það allra besta. „Það var tekið í notkun skömmu eftir stríð, og var eflaust mikill munur fyrir Hæstarétt að koma í það hús þá eftir að hafa hírst í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg frá stofnun 1920. Þetta hús var hannað fyrir réttinn, og það má segja að dómsalurinn hafi verið mjög glæsilegur, en skrifstofurnar voru svona um 4-6 fermetrar,“ segir Markús. „Það var gjarnan sagt í gamni að þær væru svo litlar að ekki væri hægt að skipta um skoðun þar inni!“

Dómhúsið sjálft var síðan kapítuli út af fyrir sig. „Húsið leið fyrir það að því hafði ekki verið haldið við í áratugi, þannig að allir gluggar voru ónýtir með tilheyrandi fúkkalykt.“ Þá þurftu menn að hlaupa til ef rigndi og forða dómaraskikkjunum undan því að lekablettur var beint fyrir ofan skápinn sem þær voru geymdar í. „Aðbúnaðurinn var hræðilegur og auðvitað var búið að tala um það í langan tíma að gera eitthvað en það sóttist seint,“ segir Markús og rifjar upp að mörgum árum hafi verið eytt í hvort koma ætti réttinum fyrir í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Húsakostur Hæstaréttar stóð þó fljótt til bóta. „Fyrsta skóflustungan að nýja húsinu var tekin um sumarið, stuttu eftir að ég byrjaði. Svo horfði maður bara á húsið rísa hægt og örugglega út um gluggann á Lindargötu með löngunaraugum.“ Ekki var þó einhugur um staðsetningu hússins og rifjar Markús upp að einhverjir hafi haft áhyggjur af því hvernig myndi takast til við að nýta það pláss sem þarna var. „En það tókst að mínu mati alveg merkilega vel og eiginlega frá þeirri stundu sem maður steig fyrst inn í þetta hús á byggingarstigi var maður alveg dolfallinn.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í sérblaði Morgunblaðsins í tilefni af 100 ára afmæli Hæstaréttar: Hæstiréttur í hundrað ár, en þar má finna fjölda greina og viðtala um sögu og starfsemi Hæstaréttar.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »