Ótímabundið verkfall hafið

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í heimsókn á leikskólanum Seljakoti …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í heimsókn á leikskólanum Seljakoti í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ótímabundið verkfall starfsmanna Eflingar, sem vinna hjá Reykjavíkurborg, hófst á miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg starfa um 1.850 félagsmenn Eflingar á 129 starfsstöðvum borgarinnar. Ekki hefur verið boðað til samningafundar í deilunni.

Áhrif verkfallsins verða mest á leikskóla, auk þess sem matarþjónusta í grunnskólum fellur niður. Standi verkfallið í lengri tíma gæti einnig þurft að loka grunnskólum þar sem ekki má halda þeim opnum nema þrifið sé reglulega. Þeim börnum sem fá vistun í leikskólum verður skipt upp í hópa og er sums staðar hafður sá háttur á að einn hópur fær vist fyrir hádegi og annar eftir hádegi eða skipt niður á daga vikunnar.

Velferðarsvið borgarinnar hefur fengið undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni sem snýr að umönnun fatlaðs fólks, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og fólks sem þarf á neyðarþjónustu í gistiskýlum að halda.

Á heimasíðu borgarinnar eru talin upp verkefni sem ekki verður sinnt meðan á verkfalli stendur. Má þar nefna að ekki verður gert við brotholur í malbiki, ruslatunnur verða ekki tæmdar í borgarlandinu, grenndargámar ekki hreinsaðir, verkefnum sem tengjast óveðri ekki sinnt og síðast en ekki síst verða lausir hestar, sem kunna að valda truflunum, ekki handsamaðir.

mbl.is