Framkalla norðurljós í torkennilegum húsum

Þetta er líklega ein af furðulegri fyrirsögnum sem þú munt lesa í dag kæri lesandi, en ég er sannfærður um að innihald greinarinnar og myndskeiðsins muni standa undir henni.

Í þremur torkennilegum kúluhúsum í hrauninu rétt fyrir utan Hafnarfjörð hefur ferðaþjónustufyrirtækið Basecamp Iceland byggt upp aðstöðu fyrir ferðamenn til að fræðast um og njóta norðurljósanna. Bæði þeirra sem eru á himni en einnig í norðurljósasúlum þróuðum sérstaklega fyrir verkefnið.  

Í myndskeiðinu er kíkt á kúluhúsin eða tjöldin sem upp á ensku eru kölluð geodisic dome og var byggingarlagið þróað um miðja síðustu öld. Þá er rætt við þá Kormák Hermannsson og Atla Lýðsson sem eru í eigendahópi Basecamp Iceland ásamt, Katrínu Friðriksdóttur, Hallfríði Guðmundsdóttur og köfunarfyrirtækinu Dive.is.

Húsin þrjú í hrauninu minna óneitanlega á sviðsmynd í vísindaskáldsögu og þeir Kormákur og Atli segja hugleiðingar ferðalanga um húsin bera vitni um að þau hleypi ímyndunaraflinu á flug. Byggingarlagið er sérstakt og hannað með það að markmiði að standa af sér það sem veðurguðunum dettur í hug að bjóða okkur Frónbúum upp á. „Við vorum hérna í 45 metrum á sekúndu í einu af þessum óteljandi óveðrum í desember og janúar,“ segir Atli. Sú reynsla hafi eytt öllum efasemdum um húsin sem högguðust ekki þrátt fyrir að vera sjö metra há.

Er verið að undirbúa landið fyrir komu COVID-19? Örugglega, en …
Er verið að undirbúa landið fyrir komu COVID-19? Örugglega, en ekki þarna samt. Þarna fær fólk sér kakó og skoðar norðurljós. mbl.is/Hallur Már

Vonbrigði með norðurljósin algeng

Þeir Atli og Kormákur segja upphaflegu hugmyndina með verkefninu hafa verið að skapa innviði fyrir erlenda ferðamenn í leit að norðurljósum upp á eigin spýtur. „Það vantar bara upplýsingar fyrir þetta fólk,“ segir Kormákur. Megnið af þeim ferðamönnum sem komi hingað að vetri til vilji sjá norðurljósin en viti í raun og veru ekki að hverju sé verið að leita. Því hafi útgangspunkturinn verið að veita skjól og aðstöðu en ekki síður upplýsingar.

Sérstaklega sé algengt að fólk sem treysti á öpp í snjallsímunum við norðurljósaleit verði fyrir vonbrigðum. „Fólk getur staðið í suðurhlíðinni á fjalli þar sem er algjörlega lágskýjað og beðið eftir því að sjá norðurljós bara af því að appið segir að 50% líkur séu á að sjá ljós þetta kvöldið,“ bendir Kormákur á. Hins vegar hefur raunin verið sú að sögn þeirra félaga að flestir gestir Basecamp Iceland hafa komið á vegum annarra ferðaþjónustuaðila sem vilji nýta sér aðstöðuna í hrauninu. 

Stóran hluta af fræðslunni segja þeir vera hálfgerða væntingastjórnun þar sem reynsla langflestra af norðurljósum séu svokölluð „timelapse“-myndskeið þar sem ljósin eru mynduð yfir langan tíma og svo hraðað á upptökunni og litirnir gjarnan ýktir. Eins og við Íslendingar vitum þá eru slíkar sýningar ekki algengar en þetta séu þó væntingarnar sem furðu margir hafa til norðurljósanna. 

Norðurljós í glersúlum. Skáldið Einar Benediktsson væri líklega hrifinn af …
Norðurljós í glersúlum. Skáldið Einar Benediktsson væri líklega hrifinn af þessari hugmynd. mbl.is/Hallur Már

Framkalla norðurljós í glersúlum

Til að gefa fólki sem gleggsta mynd af því hverju það eigi að leita að á himninum fékk Kormákur þá hugmynd að reyna að framkalla norðurljós og í einu húsanna þar sem fræðslan fer fram er búið að setja upp sex glersúlur sem líkja eftir norðurljósunum. Eitthvað sem þeir segjast ekki vita til að hafi nokkurn tímann verið gert áður. Súlurnar eru fylltar með gastegundum sem finna má á himni. „Við líkjum eftir þeim skilyrðum sem eru í ytra himinhvolfinu og skjótum á gasið með hárri spennu og náum þannig að búa til þessa lýsingu sem norðurljósin byggja á,“ útskýrir Kormákur en sótt hefur verið um einkaleyfi á aðferðinni.

Tölvustýring í súlunum var þróuð af verkfræðingnum Kára Davíðssyni en hægt er að stilla skilyrðin í súlunum svo að þau líki eftir aðstæðum á himni í rauntíma með upplýsingum úr gervitungli um hraða og þéttni sólvinda. Einnig er hægt að stilla birtustig ljósanna handvirkt með appi í símanum og það verður að viðurkennast að útkoman er furðu raunveruleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert