Ferðamaðurinn fundinn heill á húfi

Ferðamennirnir skoðuðu flakið af flugvélinni á Sólheimasandi í dag.
Ferðamennirnir skoðuðu flakið af flugvélinni á Sólheimasandi í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson

Ferðamaðurinn sem leitað var að í kvöld á Sólheimasandi er fundinn heill á húfi. Hann var í raun aldrei í hættu því hann kom sér sjálfur af svæðinu og í gistingu rúma 100 kílómetra frá svæðinu í kvöld. Þetta skýrðist um klukkan níu í kvöld.

„Það varð einhver misskilningur. Hann taldi að hópurinn hefði skilið sig eftir og fór því bara sjálfur á puttanum í gistinguna sem var í rúmlega 100 kílómetra fjarlægð,“ útskýrir Jón Hermannsson hjá svæðisstjórn Suðurlands. 

Á annað hundrað björgunarsveitarmanna leituðu að honum því óttast var að hann hefði orðið viðskila við hópinn. Ferðamennirnir voru að skoða flakið af flugvélinni á Sólheimasandi síðdegis í dag og þar varð hann við skila við hópinn. Maðurinn slökkti á símanum sínum einhverra hluta vegna en kveikti á honum þegar hann var kominn í gistinguna fyrr í kvöld.  

„Þetta var bara léttur kvöldgöngutúr. Það er nú alltaf best þegar það er svoleiðis,“ segir Jón.  

mbl.is