Gera enn ráð fyrir að kórónuveiran berist til Íslands

Enginn hefur greinst smitaður af kórónuveirunni á Íslandi.
Enginn hefur greinst smitaður af kórónuveirunni á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að nýjum tilfellum af smiti af kórónuveirunni hafi fækkað undanfarna daga, útbreiðsla utan Kína verið hæg og ekki hafi orðið vart við samfélagslegt smit í þeim Evrópulöndum þar sem veiran hefur greinst, er áfram gert ráð fyrir að veiran muni berast hingað til lands. Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem var gefin út í dag.

Staða mála er áfram óbreytt hér á landi. Enginn einstaklingur hefur greinst með veiruna hér á landi, en 24 sýni hafa verið rannsökuð og reyndust þau öll neikvæð.

Eitt tilfelli kom upp í Evrópu um helgina og eitt dauðsfall varð í Frakklandi. Aðrar fregnir hafa ekki borist um alvarleg veikindi í Evrópu.„Áhættumat Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins metur stöðuna þannig að mjög litlar líkur séu á að veiran sé lýðheilsuógn í löndum Evrópu sem beiti einangrunar- og sóttkvíaðgerðum,“ segir í stöðuskýrslunni.

Í dag hefur sýking af völdum COVID-19 kórónuveirunnar verið staðfest hjá 71.333 einstaklingum og um 1.775 einstaklingar hafa látist (2,4%). Fjögur dauðsföll hafa orðið utan Kína, eitt í Taiwan, eitt á Filippseyjum, eitt í Japan og eitt í Frakklandi. Samkvæmt John Hopkins hafa 11.188 einstaklegar náð sér eftir veikindin.

Tilfellin sem greinst hafa eru frá Kína (70.551), Hong Kong (57), Macao (10), Singapúr (75), Taílandi (34), Suður-Kóreu (30), Japan (59), Taívan (20), Malasíu (22), Víetnam (16), Sameinuðu arabísku furstadæmunum (9), Indlandi (3), Filippseyjum (3), Kambódíu (1), Nepal (1), Sri Lanka (1), Ástralíu (15), Bandaríkjunum (15), Kanada (8), Þýskalandi (16), Frakklandi (12), Bretlandi (9), Ítalíu (3), Rússlandi (2), Spáni (2), Belgíu (1), Finnlandi (1) og Svíþjóð (1). Farþegaskip við Japan (355). Flest tilfellin, eða 70.618 hafa greinst í Kína. Af þeim 45 einstaklingum sem greinst hafa í Evrópu hafa 14 smitast innan Þýskalands, 7 innan Frakklands og 1 í Bretlandi. Einn einstaklingur hefur greinst í Evrópu á sl. 4 dögum.

mbl.is

Kórónuveiran

28. mars 2020 kl. 15:19
963
hafa
smitast
97
hafa
náð sér
19
liggja á
spítala
2
eru
látnir