Hópur Íslendinga missir af maraþoni vegna kórónuveiru

Tókýómaraþonið verður með breyttu sniði í ár.
Tókýómaraþonið verður með breyttu sniði í ár. AFP

Búið er að aflýsa Tókýómaraþoninu fyrir þá áhugamenn sem ætluðu að taka þátt en hlaupið átti að fara fram 1. mars. Ástæðan er sú að mótshaldarar hafa áhyggur af kórónuveirunni COVID-19 og útbreiðslu hennar í Japan.

Fimmtán Íslendingar ætluðu að taka þátt í hlaupinu í gegnum Bændaferðir, auk þess sem sjö makar eða félagar ætluðu með. „Að sjálfsögðu eru það mikil vonbrigði fyrir hlaupara sem eru búnir að vera að undirbúa sig í þrjá mánuði og margir þarna að klára sitt síðasta stóra hlaup í sex stóru hlaupunum,“ segir Inga Dís Karlsdóttir hjá Bændaferðum.

Fólk með andlitsgrímur bíður eftir neðanjarðarlest í Ginza-hverfinu í Tókýó.
Fólk með andlitsgrímur bíður eftir neðanjarðarlest í Ginza-hverfinu í Tókýó. AFP

Óvissa í kringum endurgreiðslur 

Undirbúningsfundur var haldinn á fimmtudaginn og allt leit þá út fyrir að ferðin yrði farin þrátt fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar en það breyttist í morgun. „Við fengum upplýsingar snemma í morgun og létum okkar fólk strax vita og svo kom tilkynning tveimur til þremur tímum seinna sem var send á alla þátttakendur,“ greinir Inga Dís frá.

Pakkaferðin hjá Bændaferðum kostaði 343.800 krónur. Innifalið í því var gisting, miði, fararstjórn og fleira. Flugferðin var ekki innifalið. Spurð út í endurgreiðslur segist Inga Dís vera að bíða eftir því að samstarfaðili Bændaferða erlendis hafi samband. Hún segir það vera öðruvísi þegar fólk tekur þátt í hlaupi í gegnum ferðaskrifstofu heldur en að fara á eigin vegum. Aðeins einn birgir sé úti sem sjái um að selja Bændaferðum hlaupanúmer, hótel og skoðunarferðir. Hún veit um þrjá hlaupara úr sínum kunningjahópi sem ætlaði að taka þátt í maraþoninu á eigin vegum.

„Þau þurfa að fá sinn tíma,“ segir Inga Dís um samstarfsaðila Bændaferða. „Ég veit að þeir voru að funda í morgun sjálfir. Ég get ekki betur heyrt en það sýni allir þessu mikinn skilning og það taki nokkra daga að fá svör um hvað tekur við,“ segir hún og kveðst vongóð um að fólk fái ferðina bætta. Þegar hefur verið gefið út að skráningarréttur fyrir hlaupið á næsta ári verður í boði fyrir þá sem ætluðu út núna.

Hópur fólks gengur yfir gangbrautirnar frægu í Shibuya-hverfinu í Tókýó.
Hópur fólks gengur yfir gangbrautirnar frægu í Shibuya-hverfinu í Tókýó. AFP

Átti að verða sjötta hlaupið

Mbl.is hafði samband við einn hlaupara sem segir það mikil vonbrigði að hætt hafi verið við maraþonið. Mikill kostnaður hafi farið í ferðina, að minnsta kosti hálf milljón króna, og óvissa sé uppi um endurgreiðslur. Undirbúningurinn vegna æfinga hafi einnig verið mikill.  „Við vissum ekki annað en að við værum að fara.“

Hann segir að undirliggjandi skjálfti hafi verið fyrir hendi vegna veirunnar en að mótshaldarar úti hafi verið kokhraustir og ekki talað um að aflýsa hlaupinu. Andlitsgrímur og spritt áttu að vera til taks, auk þess sem fleiri varúðarráðstafanir voru í gangi. Sömuleiðis hafi fólk hér heima hvatt þau til að taka þátt og talað um Tókýó sem hreinlegustu borg í heimi.

Viðmælandi mbl.is sagði jafnframt að Tókýómaraþonið væri það eina sem hann ætti eftir að hlaupa af þeim sex stærstu í heimi og vonbrigðin því enn meiri fyrir vikið. Erfitt sé að komast í þetta maraþon. Annaðhvort hafi Íslendingar komist í gegnum útdrátt eða Bændaferðir.

Fólk á gangi í Tókýó.
Fólk á gangi í Tókýó. AFP

65 staðfest smit í Japan

Fram kemur í frétt AFP að ákvörðunin um að aflýsa hlaupinu hafi áhrif á um 38 þúsund hlaupara en ekki svokallaða elítuhlaupara. „Við komumst að þeirri niðurstöðu að því miður er orðið erfitt að skipuleggja viðburðinn […] eftir að þó nokkur tilfelli [veirunnar] voru staðfest í Tókýó,“ sagði Tókýómaraþon-stofnunin í yfirlýsingu.

Að minnsta kosti 65 smit hafa verið staðfest í Japan. Þar er ekki tekið með í reikninginn hundruð smita um borð í skemmtiferðaskipi við strendur landsins.

Heilbrigðisráðherra Japans hvatti almenning í gær til að forðast að vera í miklum fólksfjölda og að taka ekki þátt í samkomum sem ekki væru nauðsynlegar. Fyrir vikið fóru af stað vangaveltur um að hætt yrði við maraþonið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert