Andlát: Jakob Björnsson

Jakob Björnsson, fyrrverandi Orkumálastjóri.
Jakob Björnsson, fyrrverandi Orkumálastjóri. Ljósmynd/Aðsend

Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, lést á hjúkrunarheimilinu Eir laugardaginn 15. febrúar síðastliðinn.

Jakob fæddist 30. apríl 1926, var yngstur af þremur sonum Björns Guðmundar Björnssonar bónda í Fremri-Gufudal A-Barðastrandarsýslu og Sigríðar Ágústu Jónsdóttur húsfreyju. Jakob missti móður sína á 7. ári og flutti þá í Hnífsdal með föður sínum og þaðan lá leiðin til Siglufjarðar á 10. aldursári hans.

Þar lauk hann gagnfræðaprófi og hóf í framhaldinu nám við Menntaskólann á Akureyri. Móðurbróðir Jakobs, Sveinn Jónsson, bátasmiður á Siglufirði, sá möguleika í honum og styrkti hann til náms við HÍ þar sem hann lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði árið 1950, þaðan lá leiðin til DTH í Kaupmannahöfn þar sem hann lauk síðan prófi í raforkuverkfræði 1953.

Sama ár fékk hann starf sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Veturinn 1956-1957 stundaði hann framhaldsnám við Tækniháskólann í Aachen í V-Þýskalandi. Yfirmaður orkudeildar raforkumálastjóra 1958-61. Verkfr. hjá verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens 1961-62. Verkfræðileg ráðgjafarstörf frá 1962 á sviði virkjanarannsókna, orkumála o.fl. Fékk ferðastyrk frá SÞ til að kynna sér sér áætlanagerð um raforkukerfi 1966. Kenndi CPM-námskeið fyrir Stjórnunarfél. Ísl. Í stjórn SV 1959-60, LVFÍ 1961-63, RVFÍ 1956-57. Var í rannsóknarráði ríkisins 1963-65 og ráðgjafanefnd Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins frá 1965. Kom að stofnun seinnihlutadeildar verkfræðináms við HÍ og varð þar síðan prófessor. Orkumálastjóri frá 1973-96 þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Jakob fékk sem barn ævisögu Thomasar Edisons og heillaðist í framhaldinu af rafmagni og eiginleikum þess. Orku- og virkjanamál áttu því hug hans allan bæði starfsferilinn og eftirlaunaárin. En á eftirlaunaárunum lét hann sitt ekki eftir liggja í þjóðfélagsumræðunni um stóriðju-, virkjana- og orkumál. Skrifaði hann margar greinar um efnið. Mun sumum hafa þótt nóg um málflutning hans og var hann því stundum kallaður hugmyndasmiður stóriðjustefnu stjórnvalda og jafnvel holdgervingur hennar. Þó var það jafnan samdóma álit manna að hann hafi alltaf verið málefnalegur og rökfastur.  

Árið 2005 var Jakob sæmdur viðurkenningu frá Landsvirkjun fyrir einstakt framlag til íslenskra orkumála.

Jakob lifði eiginkonu sína, til 45 ára, Jónínu Þorgeirsdóttur en hún lést 2002. Hann skilur eftir sig dóttur, stjúpson, þrjú barnabörn og 5 barnabarnabörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert