Mikill munur á frístundastyrkjum sveitarfélaga

Frístundastyrkir sveitarfélaga eru æði mismunandi. Allt upp í 54 þúsund …
Frístundastyrkir sveitarfélaga eru æði mismunandi. Allt upp í 54 þúsund á ári og niður í 0 krónur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill munur er á frístundastyrkjum sem stærstu sveitarfélög landsins bjóða börnum samkvæmt nýrri úttekt Alþýðusambands Íslands. Hafnarfjörður veitir hæstu styrkina fyrir árið 2020, eða 54 þúsund krónur á ári. Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð bjóða hins vegar ekki upp á neina frístundastyrki.

Af þeim sveitarfélögum sem bjóða upp á slíka styrki eru þeir lægstir í Borgarbyggð, 20 þúsund krónur á ári. Næsthæstu styrkirnir eru hins vegar í Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðabæ og Reykjavík, en þar er styrkurinn 50 þúsund krónur á ári. Hjá Mosfellsbæ hækkar styrkurinn upp í 60 þúsund krónur fyrir þriðja og fjórða barn. Aldursbilið sem styrkurinn gildir fyrir er lengra á Seltjarnarnesi, Kópavogi og Garðabæ, 5-18 ára en ári styttra í Reykjavík og Mosfellsbæ, 6-18 ára.

Vestmannaeyjar bjóða upp á frístundastyrki fyrir lengsta aldursbilið 2-18 ára, en Akureyri í stystan tíma fyrir 6-17 ára gömul börn.

Frístundastyrkir eru ætlaðir til að styrkja tómstundastarf barna og eru yfirleitt greiddir sem ákveðin peningaupphæð á ári sem fylgir hverju barni. Styrkirnir stuðla að því að börn geti tekið þátt í tómstundastarfi óháð efnahag og félagslegum aðstæðum og jafna þeir tækifæri barna til tómstundaiðkunar, segir í tilkynningu ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert