Segir dóminn ekki hafa fordæmisgildi

Samninganefnd Blaðamannafélags Íslands hjá ríkissáttasemjara í nóvember í fyrra.
Samninganefnd Blaðamannafélags Íslands hjá ríkissáttasemjara í nóvember í fyrra. mbl.is/​Hari

Dómur Félagsdóms í máli Blaðamannafélags Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins vegna Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, vegna fréttaskrifa á vef mbl.is meðan á verkfalli blaðamanna netmiðla stóð, hefur ekkert fordæmisgildi ef horft er til annarra starfsstétta.

Þetta segir Magnús M. Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ, spurður út í dóminn. Niðurstaða dóms­ins var sú að verk­falls­boðun telj­ist binda alla launþega í viðkom­andi starfs­grein, hvort sem þeir til­heyra Blaðamanna­fé­lag­inu eða ekki, enda vinni þeir á starfs­sviði kjara­samn­inga Blaðamanna­fé­lags­ins. Hins veg­ar séu verk­tak­ar ekki bundn­ir af verk­falls­boðun, þar sem kjör þeirra heyra ekki und­ir samn­ing­ana.

Magnús M. Norðdahl.
Magnús M. Norðdahl. Ljósmynd/Aðsend

Magnús segir að rétturinn til þess að boða verkföll og framkvæmd við þau sé bundinn við verkalýðsfélög og taki til launafólks. Hann segir langa hefð fyrir því í stétt blaðamanna að verktakar fái greidd ritlaun fyrir einstaka greinar og eðlilega séu slík störf ekki hluti af hefðbundnum kjaradeilum.

Ekki séu þó allir verktakar kallaðir verktakar. „Í mörgum tilvikum er réttarstaða launafólks gerð óskýr með því að kalla fólk í samningum verktaka án þess að þeir raunverulega séu það. Um þetta hafa dómstólar ítrekað fjallað og komist að þeirri niðurstöðu að slíkum samningum sé hægt að víkja til hliðar. Dómurinn er ekki að segja annað en það að verkföll taka ekki til raunverulegra verktaka en verkföll taka að sjálfsögðu til einhverra sem þykjast vera verktakar en eru í rauninni launamenn,“ greinir hann frá.

Frá sáttafundi í kjaradeilunni í fyrra.
Frá sáttafundi í kjaradeilunni í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurður segir hann dóm Félagsdóms ekki hafa komið sér á óvart. „Við teljum að hann endurspegli það sem við höfum lagt upp með í þeim aðgerðum sem við höfum gripið til hingað til í verkföllum og höfum fjallað um áður ítarlega á okkar heimasíðu,“ segir Magnús.

mbl.is