„Stefán skoraði mjög hátt frá upphafi“

Stjórn Ríkisútvarpsins hefur útlistað ráðningarferli og ráðningu Stefáns Eiríkssonar sem …
Stjórn Ríkisútvarpsins hefur útlistað ráðningarferli og ráðningu Stefáns Eiríkssonar sem útvarpsstjóra. Ljósmynd/Aðsend

„Stefán skoraði mjög hátt frá upphafi,“ segir Kári Jónasson, formaður stjórnar Ríkisútvarpsins, um ráðningarferli Stefáns Eiríkssonar sem útvarpsstjóra. Um helgina birti Ríkisútvarpið ítarlega skýringu á ráðningarferli og ráðningu Stefáns.

Kári útskýrir að stjórnin hafi komist að samhljóða sameiginlegri niðurstöðu um ráðningu Stefáns og að ekki hafi komið til atkvæðagreiðslu, líkt og kom fram í yfirlýsingunni.

Í reglum um stjórn Ríkisútvarpsins vegur atkvæði formanns stjórnar tvöfalt. „Það hefur aldrei komið til að nota þessi tvö atkvæði síðan ég varð formaður,“ segir Kári og vísar til umræðu um slíkt. Einn innan stjórnarinnar sat hjá í umræðunum um umsækjendur.  

Engin nöfn á umsækjendum verða gefin upp. Í lokaúrtakinu komu fjórir einstaklingar til greina og þeim var fækkað niður í þrjá.

„Við getum ekkert sagt hvað hann hafði umfram þennan eða hinn,“ segir Kári spurður hvað nákvæmlega Stefán hafði umfram hina umsækjendur um starf ríkisútvarpsstjóra. Hann vísar ennfremur til ferilskrár Stefáns og útlistunar stjórnarinnar en að öðru leyti tjáir hann sig ekki um ráðningarferlið.

Kári Jónasson formaður stjórnar Ríkisútvarpsins.
Kári Jónasson formaður stjórnar Ríkisútvarpsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert