„Það þyrmdi yfir mig“

Sigursteinn segir blendnar tilfinningar fylgja því að komast á sporið …
Sigursteinn segir blendnar tilfinningar fylgja því að komast á sporið í málinu. mbl.is/Hari

Sigursteinn Másson, höfundur þáttanna Sönn íslensk sakamál sem hægt er að nálgast á Storytel, telur að mikilvægast sé að finna út úr því hvernig aðgangur var að Chevrolet-leigubifreið sem Sveinbjörn Gíslason, sem ákærður var fyrir morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra, hafði til umráða.

Við gerð þáttanna komu fram nýjar vísbendingar í morðmálinu sem eru þess eðlis að lögregla hefur ákveðið að hefja frumathugun á því hvort tilefni sé til að hefja rannsókn á málinu að nýju, en það er enn óleyst. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn sagði í viðtali í Kastljósi í kvöld að ástæða væri til að skoða þetta mál betur í ljósi nýrra vísbendinga, enda væri um sérstakt mál að ræða.

Gunnar var skotinn í hnakkann með Smith & Wesson-skammbyssu í leigubifreið sinni árið 1968. Byssan var í eigu Jóhannesar Jósefssonar, fyrrverandi hótelstjóra á Hótel Borg, en henni hafði verið stolið. Umrædd byssa fannst undir farþegasætinu í Chevrolet-leigubifreið Sveinbjörns árið 1969.

Ekki tókst hins vegar að sanna að Sveinbjörn hefði myrt Gunnar. Engin tenging fannst á milli þeirra og ekkert tilefni. Þá neitaði Sveinbjörn alfarið sök. Hann sat þó í gæsluvarðhaldi í 11 mánuði vegna málsins.

Þarf ósvífinn karakter í svona verknað

„Það er ekki auðvelt að leysa þetta mál í dag. Þetta mál hefur verið frá upphafi mikil ráðgáta. Þetta flakk á byssunni, hvernig hún hefur þá, ef rétt er, verið í hanskahólfinu og tekin þaðan og skilað aftur í bílinn, undir sætið í bílnum. Það í sjálfu sér er mjög sérkennilegt,“ segir Sigursteinn í samtali við mbl.is.

„Ef það er maður sem hefur farið og tekið byssuna úr bílnum, skotið leigubílstjórann í hnakkann, síðan farið og skilað byssunni aftur undir sætið, eins og margt bendir til, þá er það ekki bara verknaðurinn sjálfur, morðið, sem er svo ótrúlega bíræfið og hroðalegt, heldur að koma þá sök á saklausan mann í ofanálag. Þú þarft mjög ósvífinn karakter í svoleiðis verknað.“

Það sem flækir svo málið enn frekar er að sterkar vísbendingar komu fram við gerð þáttanna um að umrædd byssa hefði verið notuð til að ógna tveimur börnum, Valgeiri Skagfjörð og systur hans, á heimili þeirra árið 1969. Sigursteinn telur margt benda til að sá sem ógnaði börnunum hafi verið Þráinn Hleinar Kristjánsson. Þau báru kennsl á hann í sakbendingu sem Sigursteinn setti upp eftir ráðleggingar frá lögreglu. Þá sögðu þau manninn hafa sagst heita Þráinn, þegar hann ógnaði þeim, og hann talað eins og hann hefði myrt mann.

„Kenningin snýst um það hvort þetta geti verið maðurinn, sem í ársbyrjun 1969 ógnaði systkinunum, þess vegna var farið út í þessa óformlegu sakbendingu til að kanna hvort þau myndu þekkja hann á mynd. Sem Valgeir gerði mjög greinilega, en systirin nefndi tvo. Þegar þau voru saman sagðist hún eftir á að hyggja á sama máli og Valgeir,“ útskýrir hann og tekur fram að Valgeir hafi verið eldri, á þrettánda ári, en systirin tíu ára.

Sigursteinn segir það vera mjög ákveðna vísbendingu. „Ég vil þó ekki segja að með því sé komin fram mjög sterk vísbending um morðið á Gunnari Tryggvasyni. Það er svo annað mál. En það sem tengir þau er þessi byssa og það hversu sérstök hún var og vandfundin. Það gerir málið sérlega áhugavert. Hvort einhver lausn sé í sjónmáli, það er allt of snemmt að segja nokkuð um það.“

Eitthvað sem hann gat ekki snúið baki við

Hann segir mjög mikilvægt að málið sé komið í ferli hjá lögreglunni bæði fyrir aðstandendur Sveinbjörns og Gunnars. „Þarna erum við alla vega komin á eitthvert spor sem ég held að hljóti að teljast mikilvægt. Það má segja að við séum komin lengra með að fá einhvern botn í þetta heldur en hefur verið áður.“

Sigursteinn segir mjög blendnar tilfinningar fylgja því að hafa komist á þetta spor og áttað sig á hugsanlegum tengslum í málunum. „Hlutverk fjölmiðlamanns er að varpa ljósi á hluti og upplýsa hluti og við höfum dæmi um það, sérstaklega erlendis frá, að fjölmiðlar hafa gengið mjög langt í að upplýsa sakamál, þrátt fyrir að það sé ekki beinlínis hlutverk þeirra. Það er fyrst og fremst lögregla sem á að gera það. Þess vegna hefur þetta verið blendin tilfinning hjá mér.“

Hann gat hins vegar ekki á sér setið eftir að hafa skoðað bakgrunn Þráins frekar. Í ljós kom að hann varð manni að bana árið 1979. Morðið var hrottalegt og algjörlega tilefnislaust, líkt og virðist hafa verið raunin þegar Gunnar var myrtur.

„Þegar ég fór að skoða þennan einstakling, Þráin, og mál hans frá árinu 1979 þá get ég alveg sagt að það þyrmdi yfir mig. Það var svo margt í sambandi við það mál, auðvitað fornafnið, en líka hvernig það morð var framið, við hvaða aðstæður og hvernig geðlæknismatið var, sem fékk mig til að hugsa að þarna væri eitthvað á ferðinni sem ég gæti ekki snúið baki við. Þetta var eitthvað sem varð að skoða áfram.“

Hann segir þó enga gleði í sínum huga, enda séu aðstandendur á bak við þessa einstaklinga. „Við erum líka með einstakling, Þráin, sem fremur þetta hrottalega morð en hann á fullt af systkinum. Þannig að það eru aðstandendur í kringum hann. Það er mjög mikilvægt að það er ekki verið að dæma hann á einn eða annan hátt. Þetta er sterk vísbending um að hann sé maðurinn sem ógnaði systkinunum. Það afbrot væri löngu fyrnt að lögum, en morð auðvitað fyrnist aldrei. Það er mikilvægt að hafa það í huga að á þessu stigi eru þetta aðskilin mál. Ég er ekki undir neinum kringumstæðum að segja að hann sé morðingi Gunnars Tryggvasonar. Það þarf að skoða málið miklu betur til að komast að þeirri niðurstöðu.“

Stóra spurningin hver hafði aðgang að hanskahólfinu

Sigursteinn segir það líka athyglissvert hvað morðið sem Þráinn framdi á Hverfisgötunni 1. apríl 1979 fékk litla fjölmiðlaumfjöllun. „Þetta er sérlega hrottalegt morð og mjög sérstakt í íslenskri sögu, en af einhverri ástæðu fær það mjög litla umfjöllun.“

Áhugavert verður að sjá hvað kemur út úr frumathugun lögreglu og hvort málið verði tekið til rannsóknar að nýju. Þá fyrst er hægt að binda vonir við einhverja niðurstöðu.

„Það er fyrst og fyrst og fremst hin mögulega tenging á milli Chevrolet-bílsins og Sveinbjörns og þá við mögulega Þráin, ef það er hægt að skoða þessar tengingar. Það er nú þegar til staðar sú tenging að Sveinbjörn kom oft á heimili systkinanna og sótti mikið til móður þeirra. Það er tenging við manninn sem kemur og ógnar þeim með byssunni. Sá greinilega þekkti kóðann sem þurfti til að komast inn á stigaganginn. Hann hefur fengið þær upplýsingar frá öðrum sem komu þarna.“

Líkt og áður sagði telur Sigursteinn einna mikilvægast að skoða hvert aðgengi var að bíl Sveinbjörns. Hver hefði getað komist í hanskahólf bílsins og sótt byssuna, þar sem Sveinbjörn kom henni fyrir. Og svo skilað henni aftur undir farþegasætið í bílnum þar sem hún fannst ári síðar. „Það er er hin stóra spurning, hver mögulega hefði haft aðgang að bílnum og komist í þetta hanskahólf.“

mbl.is