Þyrlan sótti slasaða skipverja (myndskeið)

Sigmaður að störfum um helgina.
Sigmaður að störfum um helgina. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sótti tvo slasaða skipverja í erlent flutningaskip á laugardag sem statt var skammt norður af Keilisnesi. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð vegna slyss í vélarrúmi flutningaskipsins og var ákveðið að senda þyrlu til að hægt væri að koma mönnunum undir læknishendur.

Vegna tungumálaörðugleika var túlkur fenginn til að aðstoða áhöfnina áður en þyrlan tók á loft til að fara yfir hvernig staðið yrði að hífingum.

Þegar þyrlan kom á vettvang var sigmanni, lækni, tveimur hífingarbörum og búnaði slakað um borð í skipið. Þyrlan fór frá skipinu meðan áhöfnin athafnaði sig um borð og hlúði að skipverjunum. Þeim var komið fyrir á grjónadýnu í hífingarbörum og undirbúnir til flutnings.

Að því búnu fór þyrlulæknirinn aftur um borð í þyrluna og svo voru skipverjarnir tveir hífðir um borð. Sigmaðurinn fór síðastur frá flutningaskipinu en skipverjar voru fluttir á Landspítalann í Fossvogi.

Á laugardagskvöld var áhöfnin á TF-GRO kölluð út til að annast sjúkraflutning frá Vestmannaeyjum. Vegna veðurs gat sjúkraflugvél ekki lent í Eyjum. Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum og var komin aftur til baka rúmri klukkustund síðar.

mbl.is