Tók lengri tíma en búist var við

Aðstæður voru erfiðar og mikið brim.
Aðstæður voru erfiðar og mikið brim. Skjáskot úr myndskeiði frá aðgerðum næturinnar

Aðgerðir næturinnar norðan við Voga á Vatnsleysuströnd tóku lengri tíma en búist var við, segir örþreyttur formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, Bogi Adolfsson, við mbl.is. Hjálparbeiðni barst frá litlum fiskibát skömmu eftir miðnætti sem rak vélarvana að landi.

Aðstæður voru erfiðar og mikið brim, eins og sjá má að meðfylgjandi myndskeiði, og voru björgunarsveitarmenn á Suðurnesjum sem tóku þátt í björguninni ekki að tínast í hús fyrr en á sjöunda tímanum í morgun. Bogi segir aðspurður að líf skipstjóra fiskibátsins hafi ekki verið í hættu eftir að björgunarsveitir voru komnar á staðinn.

„Slöngubáturinn var kominn upp að bátnum þarna strax, þannig að við hefðum alltaf náð að kippa manninum frá borði,“ segir Bogi, en auk slöngubáts frá Grindavík kom björgunarskip frá Sandgerði á vettvang og tók fiskibátinn í tog.

Björgunarskipið fékk hins vegar í skrúfuna meðan á aðgerðum stóð og þá tók togarinn Sóley Sigurjóns GK fiskibátinn í tog og dró til Hafnarfjarðar, en þá var búið að senda einn björgunarsveitarmann um borð í smábátinn til hjálpar sjómanninum, sem orðinn var örmagna vegna sjólags og vinnu við að draga taugar á milli báta.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert