Bresk ofurtölva gæti endað á Íslandi

Verið er að leita að stað á Evrópska efnahagssvæðinu með …
Verið er að leita að stað á Evrópska efnahagssvæðinu með tilliti til hreinna orkugjafa, en hingað til hafa allar ofurtölvur bresku veðurstofunnar verið staðsettar í Bretlandi. Rax / Ragnar Axelsson

Sökum hreinna orkugjafa kemur Ísland til greina sem staður fyrir nýja ofurtölvu bresku veðurstofunnar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að ofurtölvan verði byggð á árunum 2022 til 2032 og hún verði átján sinnum öflugri en núverandi tölva og langstærsta framkvæmd sem breska veðurstofan hefur farið í.

Áætlaður kostnaður við verkefnið í heild er 1,2 milljarðar punda eða tæpir 200 milljarðar króna. 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins væri raforkuþörfin 7 MW í upphafi en gæti síðar margfaldast og er því verið að leita að stað á Evrópska efnahagssvæðinu með tilliti til hreinna orkugjafa, en hingað til hafa allar ofurtölvur bresku veðurstofunnar verið staðsettar í Bretlandi.

Samkvæmt BBC er helst horft til Íslands og Noregs í þessu samhengi, en forstjóri Veðurstofu Íslands segir að Bretar hafi ekki haft samband varðandi uppsetningu tölvunnar hérlendis. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur falið sendiráði Íslands í London að fylgjast með málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert