Fær meira í verkfalli en fyrir vinnuna

Leikskólastarfsmaður í borginni varð undrandi er hann sá að hann …
Leikskólastarfsmaður í borginni varð undrandi er hann sá að hann fengi meira úr vinnudeilusjóði Eflingar en fyrir vinnu sína á leikskóla. Mynd af leikskólabörnum á ferð um miðborgina, úr safni. mbl.is/Hari

Leikskólastarfsmaður hjá Reykjavíkurborg, sem situr nú heima í ótímabundnu verkfalli Eflingar, vekur athygli á því að hann fær meira greitt úr vinnudeilusjóði Eflingar á meðan verkfallið stendur yfir en fyrir starf sitt á leikskóla í borginni.

Efling hefur greitt starfsmönnum borgarinnar 18.000 krónur úr vinnudeilusjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem þeir leggja niður störf, en þessi tiltekni starfsmaður er á taxta sem skilar um 340.000 krónum í heildarlaun fyrir 100% starf sem ófaglærður leiðbeinandi á leikskóla í borginni.

Starfsmaðurinn tekur dæmi af launaseðli sínum frá því í nóvember, en í þeim mánuði voru vinnudagarnir 21 talsins. Fasti dagvinnutaxtinn fyrir starfið er 305.450 krónur og ofan á það bætist greidd yfirvinna fyrir föst neysluhlé auk orlofs, samtals um 34 þúsund krónur, sem gerir rösklega 16 þúsund fyrir hvern unnin vinnudag.

„Fannst rétt að vekja athygli á þessu þar sem það er frekar fáránlegt að sitja heima í verkfalli (sem almennt telst kvíðavaldandi vegna tekjuleysis) og fá meira fyrir það en að vera raunverulega í vinnunni,“ skrifar starfsmaðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, til mbl.is.

Rétt er að taka fram að þó starfsmaðurinn virðist fljótt á litið vera að fá meira í sinn hlut, þýðir það ekki að hann sé betur settur með greiðsluna í vinnudeilusjóði. Skattur er greiddur af þessum 18.000 kónum og starfsmaðurinn verður einnig af öllum launatengdum greiðslum og vinnur sér ekki inn nein lífeyrissjóðsréttindi.

Gengur í báðar áttir og breytist í ótímabundna verkfallinu

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir við mbl.is að vissulega séu dæmi um þetta, en þetta gangi líka á hinn veginn, þannig að launahærri starfsmenn sem hafi lagt niður störf séu að fá minna í verkfallinu en þeir myndu fá í launaumslagið fyrir að sinna starfi sínu.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Hari

Viðar segir að 18.000 krónurnar séu nærri meðaltali dagslauna hjá þeim hópum sem lagt hafa niður störf, en hann segir að núna þegar ótímabundið verkfall sé skollið á verði umsóknir um greiðslur úr vinnudeilusjóðnum með eilítið öðru fyrirkomulagi.

Framkvæmdastjórinn segir að horft verði til starfshlutfalls og raunverulegs vinnutaps þeirra sem sækja um greiðslur úr vinnudeilusjóðnum, í stað þess sama upphæðin renni til allra, eins og gert var í skæruverkföllunum.

Fréttin hefur verið uppfærð..

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert