Hótaði konu með kynferðislegum ljósmyndum

Við ákvörðun refsingar, fjögurra mánaða skilorðsbundins fangelsins, var meðal annars …
Við ákvörðun refsingar, fjögurra mánaða skilorðsbundins fangelsins, var meðal annars litið til þess að maðurinn hefði reynst samvinnuþýður við rannsókn málsins. mbl.is/Eggert

Karlmaður var á dögunum dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir kynferðisbrot og hótanir. Maðurinn sendi, algjörlega óumbeðinn, fjórar kynferðislegar ljósmyndir til tveggja kvenna í maí árið 2018, en önnur kvennanna var á þessum tilteknu myndum ásamt eiginmanni sínum.

Sá dæmdi komst yfir myndirnar á lokaðri vefsíðu, samkvæmt því sem fram kemur í dómnum, en myndirnar sýndu kynfæri karls og konu og samræði karls og konu. Maðurinn hótaði konunni því að senda myndirnar á fleira fólk og lét verða af því, sendi þær á aðra konu og lét fylgja með niðrandi ummæli um konuna sem var á myndunum.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og litið var til þess við ákvörðun refsingar og einnig til þess að hann væri með hreint sakavottorð og hefði reynst lögreglu samvinnuþýður við rannsókn málsins.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert