Kalla eftir gögnum um morðið á Gunnari

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn.
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Rósa Braga

„Við erum búin að kalla eftir þeim gögnum sem til eru um málið og rannsókn þess. Þetta er það gamalt mál að það er ekki í okkar vörslu lengur,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um þau rannsóknargögn sem tengjast óupplýstu morði á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra sem var framið á Laugalæk árið 1968. 

Nýjar vísbendingar komu fram við gerð Sigursteins Mássonar á þáttunum Sönnum íslenskum sakamálum fyrir Storytel sem greint var frá á mbl.is í gær. Þar kom fram að maður ógnaði Val­geiri Skag­fjörð og syst­ur hans, á heim­ili þeirra árið 1969, með byssu sem sannað var að hefði verið notuð til að myrða Gunnar. Þessi maður fullyrti jafnframt við systkinin sem voru ung að árum að hann hafi myrt mann.  

Lögreglan er með gögn undir höndum sem notuð voru við þáttagerðina sem er meðal annars sakbending systkinanna. Þar bera þau kennsl á manninn sem ógnaði þeim árið 1968 og sá hinn sami, Þráinn Hleinar Kristjánsson, varð manni að bana árið 1979.  

Karl Steinar tekur fram að frumathugun verði gerð á gögnunum og í kjölfarið tekin ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja rannsókn. Enn sem komið er hefur engin ákvörðun verið tekin um rannsókn. 

Viðbúið er að það taki tíma að kalla eftir gögnum um málið. Gögnin munu líklega liggja fyrir í marsmánuði án þess þó að hægt sé að fullyrða um slíkt.  

„Málið er óupplýst og það segir manni að ef þarna eru upplýsingar sem eru þess virði til að skoða þá viljum við alla vega taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að stíga einhver skref eða ekki,“ segir Karl Steinar.

Hér er hægt að nálgast þáttinn Sönn íslensk sakamál þar sem nýjar vísbendingar koma fram.   

mbl.is