LSS vísar deilu við Isavia og SA til sáttasemjara

Samninganefnd Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur ákveðið vísa kjaradeilu …
Samninganefnd Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur ákveðið vísa kjaradeilu sinni við ISAVIA og SA til ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

Samninganefnd Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur ákveðið vísa kjaradeilu sinni við ISAVIA og SA til ríkissáttasemjara, en þetta kemur fram í tilkynningu frá LSS.

„Samningaviðræður gengu vel og að lokum stóð eitt atriði eftir sem hvorugur aðilinn vill gefa eftir. Í kjölfarið mun LSS vísa til ríkissáttasemjara og í versta falli grípa til verkfallsaðgerða,“ segir í tilkynningunni, en ágreingurinn snýst um félagafrelsi.

LSS er ósátt við að starfsmenn sem sinna slökkvi- og björgunarþjónustu á flugvöllum, en eru ekki löggildir slökkviliðsmenn, megi ekki ganga í félagið.

Telja Isavia reyna að eyða LSS út úr tilveru sinni

„Frá 2012 hefur LSS ekki getað tekið á móti nýjum félagsmönnum vegna ákvæðis um gildissvið samnings í 18. grein í kjarasamningi LSS. Á þeim tíma var LSS að reyna að vernda lögvarið starf slökkviliðsmanna sem störfuðu á flugvöllum landsins. Inn í kjarasamninginn var sett grein varðandi gildissvið samningsins að eingöngu þeir sem væru með löggildingu skv. lögum um brunavarnir og uppfylltu reglugerð um flugvelli gætu sótt um inngöngu í LSS.  

Í kringum 2010 hættu flugvellir landsins að vinna eftir lögum um brunavarnir og þurftu starfsmenn Isavia ekki lengur að uppfylla kröfur sem gerðar voru til slökkviliðsmanna, þ.e. ráða aðila með löggildingu á þessu sviði. Frá þeim tíma starfa flugvellir landsins eftir reglugerð um flugvelli (ekki alþjóðafluvellir) og Evrópureglugerðum.

Í kjölfarið lagði Isavia niður slökkvilið á flugvöllum í núverandi mynd, tók upp slökkvi- og björgunarþjónustu og jók verkefnum á þessa starfsmenn. LSS setti sem kröfu að aðilar þyrftu að vera með löggildingu og voru að reyna að  tryggja að það yrði áfram löggilding fyrir þá sem sinna  slökkvi- og björgunarþjónustu á flugvöllum.

Svo var reyndin önnur og er þetta ákvæði að hindra það að nýir starfsmenn sem sinna slökkvi- og björgunarþjónustu geti tilheyrt fagstéttarfélaginu. Að mati LSS er félagafrelsi ekki virt og Isavia sé viljandi að eyða tilveru LSS út úr sinni tilveru í dag. Í dag er ekki gerð krafa um löggildingu til slökkvistarfa á flugvöllum,“ segir í tilkynningu frá LSS um þetta ágreiningsefni í kjaraviðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert