„Sýnir að kynið skiptir engu máli“

Margrét hefur verið dugleg að efla ímynd iðngreina fyrir ungu …
Margrét hefur verið dugleg að efla ímynd iðngreina fyrir ungu fólki. Ljósmynd/Aðsend

„Satt að segja þá átti ég ekki von á því að þetta yrði svona rosalega afgerandi, en það kom skemmtilega á óvart og var ótrúlega gaman að fá þennan stuðning,“ segir Margrét Halldóra Arnarsdóttir, nýkjörinn formaður Félags íslenskra rafvirkja, fyrst kvenna. Hún fékk tæp 84 prósent greiddra atkvæða. Þrátt fyrir að svo afgerandi kosning hafi komið henni á óvart fann hún fyrir miklum meðbyr í kosningabaráttunni.

Margrét segist hafa skynjað að félagsmenn vildu breytingar og það var ein helsta ástæða þess að hún bauð sig fram. Afgerandi kosning staðfestir að hún hafði rétt fyrir sér. „Ég fann fyrir óánægju í kjölfar kjarasamninganna og ákvað að kýla á þetta. Bjóða upp á breytingar.“

Kosið er í embættið til tveggja ára í senn og mun Margrét taka við formennsku af fráfarandi formanni, Borgþóri Hjörvarssyni, á aðalfundi félagsins í næsta mánuði. Hún segir það góða tilfinningu að ryðja þessa braut fyrir fleiri konur.

Margrét hefur tekið þátt í starfi Félags fagkvenna, meðal annars í þeim tilgangi að kynna iðnaðarstarfið fyrir ungu fólki og þá sérstaklega ungum konum. Hún hefur einnig tekið þátt í slíku starfi fyrir félag íslenskra rafvirkja. „Ég hef reynt að gera það sem ég get til að efla ímynd iðngreinanna bæði fyrir stelpum og strákum. Láta vita af okkur þannig að fólk átti sig á því að iðngreinar eru í boði sem valkostur.“

Aðspurð hvort hún telji ekki að það verði algjör sprenging í aðsókn í rafvirkjann næsta haust, segist hún vonast til að þetta veki athygli, sérstaklega hjá ungum konum.

„Ég vona að þetta veki athygli fyrir einhverjar sem kannski áttuðu sig ekki á því það er hægt að vera stelpa í þessu. Maður kannski brýtur aðeins upp staðalímyndina, sem er bara frábært. Það eru 33 konur í félaginu, af um 1960 félagsmönnum, og það að rúm 80 prósent af þeim sem kusu voru tilbúin að sýna mér stuðning fram yfir karlmann er alveg frábært. Það sýnir að kynið skiptir engu máli og þannig á það að vera. Við eigum ekki að einblína á kynið hjá neinum, frekar einstaklinginn og hvað hann er að gera.“

Margrét starfar sem rafvirki hjá rafverktaka og í Tækniskólanum. Að sinna embætti formanns bætist því við þau verkefni. „Það er nóg að gera og ég held að það verði bara gaman að sinna þessu með,“ segir Margrét að lokum.

mbl.is