Vilja ekki missa Krónuna

Hvolsvöllur.
Hvolsvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Rangárþings eystra hafa hafnað því að veita Festi, móðurfélagi N1 og Krónunnar, heimild til að framleigja húsnæði verslana sinna á Hellu og Hvolsvelli til annarra verslanakeðja. Þar sem Festi getur hvoruga verslunina selt getur fyrirtækið ekki uppfyllt skilyrði sem sett voru í sátt við Samkeppniseftirlitið vegna samruna Festar og N1.

Átti að opna Nettó-verslun

„Þau vilja ekki missa Krónuna úr bænum. Menn telja sig verr setta með að fá samkeppnisaðila okkar í bæinn í staðinn fyrir okkur,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar, í samtali við Morgunblaðið. Samið hafði verið við Samkaup um framleigu á húsnæðinu á Hvolsvelli og hugðist fyrirtækið opna þar Nettó-verslun. Festi verður áfram með rekstur á Hellu en breytir Kjarvalsversluninni í Kr.-búð.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að ákvörðunin um að hafna framleigu húsnæðisins til annarra hafi verið tekin með hagsmuni íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi. Mikil ánægja sé með verslunina og fólkið vilji ekki breytingar.

Spurður um næstu skref í málinu segir Eggert að nú undirbúi Festi sig fyrir viðræður við Samkeppniseftirlitið um breytingar á sáttinni. Krónan verði áfram á Hvolsvelli enda séu enn sjö ár eftir af leigusamningi um húsnæði verslunarinnar en það er í eigu sveitarfélagsins.

„Vonandi komast menn að þeirri niðurstöðu að sáttin sé ekki að virka. Þessi skilyrði eru ekki neinum til hagsbóta hér úti á landi þótt það kunni að eiga við í höfuðborginni þar sem styttra er á milli verslana og meira val. Það besta í stöðunni væri að þetta skilyrði félli niður við endurskoðunina,“ segir Anton Kári Halldórsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »