Ekkert bendi til óvandaðrar málsmeðferðar í Portúgal

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hjörtur

Ekkert bendir til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd fái ekki vandaða og efnislega málsmeðferð í Portúgal. Þetta kemur fram í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn mbl.is vegna væntanlegrar brottvísunar Maní Shahidi og foreldra hans.

Maní, sem er 17 ára transpiltur frá Íran, og foreldrum hans hefur verið synjað um alþjóðlega vernd hér á landi en þau komu hingað til lands frá Portúgal.

Í svari Útlendingastofnunar kemur fram að í málum sem eru afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sé ekki lagt mat á aðstæður umsækjenda um vernd í heimaríki þeirra heldur í því ríki sem beri ábyrgð á meðferð umsóknar.

Af þeim sökum sé ekki lagt mat á aðstæður umsækjenda í heimalandi þeirra, Íran, heldur í Portúgal.

Engin gögn benda til þess að slíkur kerfisbundinn galli sé á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi að það leiði til þess að umsækjendur standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð,“ kemur fram í svari Útlendingastofnunar.

„Þá er heldur ekkert sem bendir til þess að portúgölsk yfirvöld veiti umsækjendum ekki þá vernd sem áskilin er í alþjóðlegum skuldbindingum Portúgals á sviði mannréttinda, þar á meðal reglunni um að mönnum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kunni að vera í hættu,“ kemur enn fremur fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert