Íslensk fjölskylda óskar eftir flutningi heim

Eins og sakir standa bendir allt til þess að fjölskyldan …
Eins og sakir standa bendir allt til þess að fjölskyldan fái sæti í fluginu, en það hefur þó ekki fengist staðfest enn þá. Ljósmynd/Páll Ketilsson

Íslensk fjölskylda hefur óskað eftir því að komast heim frá Kína og vinna íslensk stjórnvöld nú að því að koma henni að í flugferð sem skipulögð hefur verið af Evrópusambandinu til þess að koma Evrópubúum til síns heima á föstudag.

Þetta staðfestir Hjálmar Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Um er að ræða foreldra með eitt barn. Þau hafa engin einkenni kórónuveirunnar, né nokkur annar sem til stendur að flytja frá Kína til Evrópu á föstudag. Flogið yrði svo áfram til Íslands með fjölskylduna, þar sem hún myndi sæta hefðbundinni 14 daga sóttkví, líkt og mælst hefur verið til við alla sem hingað koma frá Kína.

Eins og sakir standa bendir allt til þess að fjölskyldan fái sæti í fluginu, en það hefur þó ekki fengist staðfest enn þá. 

Að sögn Hjálmars hefur fjölskyldan verið í Kína í nokkurn tíma, líklega á ferðalagi, en haldið sig út af fyrir sig síðan kórónuveiran COVID-19 braust út í lok árs 2019. Þá hafi þau fylgt öllum fyrirmælum sem kínversk stjórnvöld hafi gefið út vegna veirunnar.

mbl.is