„Mesta hækkun lægstu launa“ sem við höfum séð

Dagur segir kröfur Eflingar enn þá langt umfram lífskjarasamningana.
Dagur segir kröfur Eflingar enn þá langt umfram lífskjarasamningana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ekki vera bjartsýnn á að lausn náist í kjaradeildu Eflingar og Reykjavíkurborgar í bráð eftir yfirlýsingar Eflingar í kjölfar samningafundarins í dag. Þar sagði meðal annars að Reykjavíkurborg hefði „enn á ný slegið á sáttahönd láglaunafólks“.

Dagur segist hins vegar bjartsýnn á þeim grunni að verið sé að gera tilboð til að leita að útfærslum sem sérstaklega koma til móts við launalægsta fólkið. Þetta kom fram í Kastljósi þar sem hann var gestur. Hann segir deiluna hafa varað of lengi og ástandið sé grafalvarlegt.

„Við erum í þeirri miklu klemmu, þrátt fyrir að hafa sett þessi tilboð á borðið, að það eru gefnar stóryrtar yfirlýsingar um að enn beri langt í milli. Og þá vaknar spurningin, hverjar eru kröfurnar?“ segir Dagur. Það megi nánast skilja að borgin sé ekki að bjóða þeim lægst launuðu góðar kauphækkanir. Þá fór hann yfir tilboðið sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur lagt á borðið fyrir Eflingu.

„Lægstu grunnlaunin á leikskólanum eru núna um 310 þúsund. Við erum að bjóða núna á grunni lífskjarasamninganna hækkun þannig að þessi grunnlaun yrðu 420 þúsund. Ungt fólk sem er að koma til að vinna í stuttan tíma, til dæmis til að eiga fyrir heimsreisu, en út af álagsgreiðslunum sem hafa verið við lýði alveg frá fyrsta degi mínum þá færu ofan á þetta 40 þúsund krónur. Þannig að fyrir dagvinnuna fengi einhver sem kæmi til að vinna á leikskóla í eitt ár eða í stuttan tíma 460 þúsund í dagvinnulaun.“

Þá bjóðist því starfsfólki sem starfi lengur á leikskólunum tækifæri til að hækka sig enn frekar í launum með starfstengdu námi og deildarstjórar fái enn meiri hækkanir. „Þá eru grunnlaunin núna 417 þúsund, en við erum að bjóða að þau hækki yfir 100 þúsund og verði 520 þúsund og með þessum álagstengdu greiðslum yrðu grunndagvinnulaun þessara deildarstjóra 572 þúsund krónur á mánuði í lok samningstímans.“ Þá segir Dagur einnig verið að tala um styttingu vinnuvikunnar og að allir fái 30 daga orlof yfir sumartímann.

„Þetta er grunnurinn í því sem við erum að bjóða og mér finnst ekki ganga að tala eins og þetta sé ekki neitt, vegna þess að þetta er líklega mesta hækkun lægstu launa sem nokkurn tíma hefur verið samið um í kjarasamningum á Íslandi. Mesta hækkun í krónutölu og ef lífskjarasamningurinn heldur þá er þetta langmesta kaupmáttarhækkun sem við höfum séð. Vegna þess að hugmyndin með þeim er að reyna að gera kjarabætur án þess að verðbólga fari af stað þannig að fólk borgi ekki í gegnum húsnæðislánin sín það sem bætist í launaumslagið.“

Dagur segist hafa trú á því að þegar fólk gefi sér tíma til að setjast yfir gögnin, leiðirnar og lausnirnar sem hafi verið lagðar fram síðustu daga verði hægt að ná samkomulagi. Þegar Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, stjórnandi Kastljóss, bendir honum á að Efling hafi sent frá sér yfirlýsingu eftir fundinn í dag þar sem vonbrigðum var lýst yfir með viðbrögð samninganefndar borgarinnar við tilboði Eflingar, segir Dagur tilkynninguna hafa komið kortéri eftir fundinn. Hann hafi trú á því að hægt sé að leysa allar deilur með samtölum.

Segir hann kröfur Eflingar hins vegar „langt umfram lífskjarasamningana og því miður enn þá umfram tilboð borgarinnar sem er í raun sterkt að mínu mati og gengur út á það að nýtast sérstaklega þessum tekjulægstu  hópum“.

Aðspurður hvað þessi deila geti varað lengi, hvað borgin haldi lengi út, segir Dagur hana nú þegar orðna of langa. „Áhrifin eru mjög vond fyrir fjölskyldur, inni á leikskólum, inni á hjúkrunarheimilum. Í velferðarþjónustunni þar sem fólk fær ekki böðun. Þetta er auðvitað bara grafalvarlegt ástand og þetta getur ekki gengið svona.“

Að lokum segir hann borgina tilbúna að setjast niður með Eflingu og fara yfir þær hugmyndir sem lagðar voru á borðið í dag, fara yfir tölurnar, ganga hóp eftir hóp hvernig útfærslurnar eru hugsaðar af hálfu borgarinnar.

mbl.is