Meta skólahald daglega

Kennsla verður samkvæmt stundaskrá á morgun í Vogaskóla. Eftir morgundaginn …
Kennsla verður samkvæmt stundaskrá á morgun í Vogaskóla. Eftir morgundaginn verður staðan metin á ný. mbl.is/Árni Sæberg

„Við metum aðstæður í hverjum og einum skóla á hverjum degi,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 

Allt skólahald fellur niður í Réttarholtsskóla á morgun og föstudaginn vegna verkfalls Eflingar, að því gefnu að samningar náist ekki. Ákvörðunin var tekin í dag út frá hreinlæti í skólanum.  

Ekki náðust samningar á fundi Eflingar og Reykjavíkuborgar sem lauk síðdegis í dag. Ef samningar nást ekki fyrir föstudaginn verður notast við svokallað veltukerfi í Grandaskóla. Í því felst að loka ákveðnum hluta hússins sem mun hafa áhrif á kennslu nemenda.

Efri hæð Vogaskóla ekki verið þrifin

Sama staða er uppi í Vogaskóla. Skólahald verður samkvæmt stundatöflu á morgun en eftir morgundaginn verður staðan metin á ný. Efri hæð skólahúsnæðisins hefur ekki verið ræst síðan verkfall Eflingar hófst. 

„Ef ekki nást samningar þurfum við að raska skólastarfi vegna þess að aðeins verður hægt að nýta jarðhæð og kjallara fyrir skólastarfið. Það hefur í för með sér að ekki geta allir nemendur verið í skólanum á hverjum degi.“ Þetta kemur fram í tölvupósti skólastjóra Vogaskóla til foreldra og forráðamanna skólans.  

Misjafnt er hversu margir starfsmenn Eflingar vinna innan skólanna og hver stöðugildin eru. Í 11 grunnskólum í Reykjavík eru starfsmenn með kjarasamning við Eflingu og starfa við ræstingar. 

„Áhrifin eru mismunandi og mismikil,“ segir Helgi. Í Réttarholtsskóla eru stöðugildi 6. Í 4 skólum er það innan við hálft stöðugildi, í 5 skólum eru stöðugildin 1 - 2 og í tveimur skólum eru þau fleiri en 2 stöðugildi. 

„Við vonum sannarlega að samningar náist. Á meðan fólk er að ræða saman þá er eitthvað að gerast,“ segir Helgi. 

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert