Missti takið og féll aftur fyrir sig

Rannsókn á slysinu sem varð á Akranesi í síðustu viku þegar kona á fertugsaldri lést af slysförum er í þann mund að ljúka. Lögreglan á Vesturlandi bíður eftir að fá í hendurnar niðurstöður læknisfræðilegra gagna en allt annað liggur ljóst fyrir.

Aðspurður segir Jón S. Ólason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, að konan hafi verið á leið niður af þaki úr stiga þegar hún féll aftur fyrir sig til jarðar, um það bil þrjá metra. Svo virðist sem hún hafi misst takið á stiganum. Enginn grunur er um að neitt saknæmt hafi átt sér stað.  

Spurður út í aðstæður á vettvangi segir Jón að jörðin hafi verið frosin þegar slysið varð.

Konan var að aðstoða við að tryggja og laga þak á húsi í iðnaðarhverfi daginn áður en óveðrið gekk yfir landið á föstudag þegar slysið varð. Húsið er í eigu fólks sem tengist konunni og var hún þar stödd með vini sínum, sem var eina vitnið að slysinu.

Hann hringdi strax á aðstoð og var konan flutt með sjúkrabíl á Landspítalann þar sem hún lést.

mbl.is