Níu fluttir með sjúkrabíl eftir 4 bíla árekstur

Fjögurra bíla árekstur varð milli Akraness og Borgarness.
Fjögurra bíla árekstur varð milli Akraness og Borgarness. mbl.is/Eggert

Hópslysaáætlun Vesturlands var virkjuð vegna fjögurra bíla áreksturs sem varð í Melasveit sem er milli Akraness og Borgarness klukkan 20:10 í kvöld. Slys á fólki reyndust ekki eins alvarleg og í fyrstu var talið en alls voru 13 manns í fjórum bílum.

Níu voru fluttir með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi til frekari aðhlynningar. Hinir fimm voru fluttir á heilbrigðisstofnun á Borgarnesi. Af þessum 13 manns voru fjögur börn og eitt þeirra smábarn. 

„Þetta var mjög harður árekstur. Það er hálka, snjókoma, blint og slæmt skyggni. Það var mikið mildi að ekki fór verr,“ segir Gísli Björnsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. 

Bílarnir komu úr gagnstæðri átt. Vegurinn er opinn en unnið er að því að færa bílana.

Allir viðbragðsaðilar á svæðinu voru kallaðir út en þegar ljóst var að meiðsl fólksins reyndust ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu var aðstoð hluta viðbragðsaðila afturkölluð. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri almannavarnadeildar, við mbl.is. 

Fréttin var uppfærð klukkan 21:37

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert