Segja nauðsynleg úrræði í Portúgal

Mótmælt var í gær og aftur hefur verið boðað til …
Mótmælt var í gær og aftur hefur verið boðað til mótmæla í dag þar sem krafan er að Maní og fjölskylda hans fái alþjóðlega vernd hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Claudie Ashonie Wil­son, lögmaður Maní Shahidi, 17 ára tran­s­pilts frá Íran, segist ekki hafa svör við því á hvaða forsendum eigi að vísa Maní og fjölskyldu hans úr landi, að teknu tilliti til þess að umsókn hans hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð hérlendis, m.a vegna mistaka stjórnvalda við afgreiðslu málsins. Á vef Útlendingastofnunar kemur fram að fjölskyldunni standi til boða nauðsynleg þjónusta og málsmeðferðarúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Portúgal, þaðan sem þau komu hingað.

Maní hefur dvalið á barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna slæmrar andlegrar heilsu síðan á sunnudagskvöld en læknar þar mælast gegn því að honum verði vísað úr landi.

Útlendingastofnun segir að við málsmeðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd séu tekin viðtöl við öll börn sem hafa til þess aldur og þroska að fengnu samþykki foreldra. Verklagi hafi verið fylgt við afgreiðslu umsóknar fjölskyldu Maní en fjölskyldan hafi afþakkað að rætt yrði við hann.

Claudie hefur verið veittur frestur fram á mánudag til að leggja fram frekari gögn í málinu en segist ekki hafa fengið svör frá stjórnvöldum um hvort Maní geti dvalið hér á meðan mál hans er til meðferðar:

Við sendum ítrekun síðdegis í gær og ég fékk svar í morgun þar sem móttaka er staðfest. Það hefur sem sagt ekkert breyst,“ segir Claudie.

Claudie Ashonie Wilson.
Claudie Ashonie Wilson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áður hefur komið fram að írönsk stjórnvöld leiti að fjölskylduföðurnum vegna þess að trúarlegt athæfi hans samræmist ekki stefnu þarlendra yfirvalda og vísar lögmaðurinn til þeirrar umfjöllunar.

Hver eru rökin fyrir því að vísa þeim úr landi?

„Þetta er frekar góð spurning. Ég get ekki svarað þessu vegna þess að stjórnvöld hafa ekki veitt mér svör hvað þetta varðar. Ég tek þó fram að það hvílir ekki skylda á stjórnvöldum að beita Dyflinnarreglugerðarinni heldur er um heimild að ræða. Þá hefur reglugerðin sjálf, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar veitt stjórnvöldum heimild til að taka umsóknir til efnislegrar meðferðar af mannúðlegum ástæðum, en þær ástæður eru án efa til staðar í þessu máli,“ segir Claudie.

Á vef Útlendingastofnunar segir að portúgölsk yfirvöld hafi veitt fjölskyldunni vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið. Því var umsókn hennar um vernd afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar með ákvörðun um að henni skyldi fylgt aftur til Portúgal.

mbl.is