Skýrist í fyrramálið hvort almannaþjónusta lamist

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB á baráttufundi BSRB, BHM og …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB á baráttufundi BSRB, BHM og Félags ísl. hjúkrunarfræðinga í Háskólabíói í lok janúar. Nú greiða sautján aðildarfélög opinberra starfsmanna atkvæði um víðtækar verkfallsaðgerðir. mbl.is/Eggert

Atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun aðildarfélaga BSRB lýkur í dag, en alls taka sautján stéttarfélög, sem í eru um 18 þúsund opinberir starfsmenn, þátt í atkvæðagreiðslunni. Þátttaka í atkvæðagreiðslunum þarf að ná 50 prósentum svo félögin geti löglega boðað til verkfalls á grundvelli þeirra.

BSRB hefur ekki yfirsýn yfir það hver kosningaþátttakan er orðin hjá aðildarfélögunum, en Brjánn Jónasson kynningarfulltrúi bandalagsins segist í svari við fyrirspurn mbl.is hafa heyrt að atkvæðagreiðslan „gangi vel fyrir sig“. Niðurstöðurnar verða teknar saman og gerðar opinberar í fyrramálið.

Vel yfir 50% þátttaka hjá Sameyki

Sameyki er stærst þeirra félaga sem nú greiða atkvæði, með um átta þúsund félagsmenn. Þaðan fengust þau svör að atkvæðagreiðslan gengi „glimrandi vel“, þátttaka væri komin vel yfir 50% á flestum stöðum og væri einna best hjá starfsmönnum sem eru með kjarasamninga við stærstu viðsemjendurna.

„Við erum bara mjög ánægð með þessa stöðu, það skiptir mestu máli að fólk sé að taka þátt og taka afstöðu,“ segir Sólveig Jónasdóttir upplýsingafulltrúi Sameykis við mbl.is, en samkvæmt skoðanakönnun sem stéttarfélagið hefur látið gera meðal félagsmanna vildu um níu af hverjum tíu félagsmönnum beita verkfallsvopninu til að knýja á um kjarasamningagerð.

Aðgerðir sem myndu „lama“ stóran hluta almannaþjónustu

Samþykki félagsmenn BSRB-félaganna verkfallsboðunina munu víðtækar aðgerðir þessara 18 þúsund opinberu starfsmanna hefjast 9. mars og standa þar til samningar hafa náðst. Boðaðar aðgerðir verða tvískiptar.

Annars vegar yrðu verkföll hjá þorra félagsmanna hjá ríki, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg á ákveðnum dögum, sem munu að óbreyttu „lama stóran hluta almannaþjónustunnar“ þessa daga, samkvæmt því sem fram kemur á vef BSRB.

Hins vegar yrðu ákveðnir hópar í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Það yrðu meðal annars starfsmenn grunnskóla og frístundaheimila á nær öllu höfuðborgarsvæðinu auk Akraness, sem þýddi að frístundaheimilin yrðu lokuð frá 9. mars.

mbl.is