Við vanmetum eigin áhrif á loftslagsmál

26,9% sögðust hafa notað einkabílinn minna síðust 12 mánuði til …
26,9% sögðust hafa notað einkabílinn minna síðust 12 mánuði til að draga úr áhrifum sínum á loftslagsbreytingar. Eggert Jóhannesson

Mjög lítill hluti Íslendinga telur að þeirra eigin hegðun geti haft mikil áhrif í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hins vegar telja flestir að hegðun almennings á heimsvísu geti haft áhrif.

Þetta eru niðurstöður nýrrar umhverfiskönnunar Gallup, en samkvæmt þeim telur aðeins um einn af hverjum fimm Íslendingum að eigin hegðun geti haft mjög eða frekar mikil áhrif á að að sporna við hlýnun jarðar á meðan 63,8% telja hegðun almennings á heimsvísu geta það.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á loftslagsráðstefnu Gallup í Hörpu í dag, en í erindi sínu á ráðstefnunni hafði umhverfisráðherra meðal annars orð á því að hve áhugavert það væri að fólk efaðist um áhrifamátt eigin gjörða, en gerði sér þó grein fyrir samtakamætti fjöldans. 

Karlar segist vita meira en breyti síður

Loftslagsbreytingar eru í öðru sæti yfir það hvað Íslendingar telja helstu áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir í dag, en þar er heilbrigðiskerfið efst á blaði. Loftslagsmálin eru fólki þó ofar í huga nú en í fyrri könnunum Gallup, því í síðustu könnun voru umhverfismálin í þriðja sæti á eftir og í þeirri þarsíðustu voru þau í því fimmta.

Þá hefur fjöldi þeirra sem telja sig vita mjög eða frekar mikið um loftslagsbreytingar hækkað lítillega frá síðustu könnun, en Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup á Íslandi, sem kynnti niðurstöðurnar fyrir ráðstefnugestum, sagði það athyglisvert að karlar teldu sig almennt vita meira um loftslagsbreytingar þótt þeir væru síður líklegir til að breyta hegðun sinni í samræmi við þá vitneskju sína en konur.

Í könnuninni var jafnframt spurt hvort þátttakendur teldu að loftslagsbreytingar væru af völdum náttúrunnar, af mannavöldum eða hvort tveggja, en samkvæmt niðurstöðum fjölgar þeim milli ára sem telja að þær séu aðallega af náttúrunnar völdum úr 4,8% í síðustu könnun í 7,5%. Þá sagði nærri fjórðungur þátttakenda, eða 22,9%, allt of mikið mál gert úr áhrifum manna á loftslagsbreytingar.

Ánægðastir með eigin viðleitni 

Flestir eru ánægðastir með sína eigin viðleitni til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, eða 76% svarenda, og þar af eru 13,7% mjög ánægð og 4,3% að öllu leyti ánægð. Hið sama er ekki að segja um ánægju með viðleitni stjórnvalda og sveitarfélega, en í báðum tilvikum er meirihluti þátttakenda óánægður, þó að fleiri séu ánægðir með viðleitni sveitarfélaga en stjórnvalda.

Meirihluti þátttakenda hefur áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar geta haft á þá og fjölskyldur þeirra og jafnframt hugsar meirihluti þeirra mikið um eigin áhrif á loftslagsbreytingar. Þá hafði meirihluti þátttakenda breytt hegðun sinni nokkuð eða mikið til að lágmarka áhrif sín á loftslagsbreytingar og umhverfi á síðustu 12 mánuðum. 

Algengustu breytingar á hegðun fólks voru flokkun sorps, minnkun á plastnotkun og notkun á einnota umbúðum, og loks minnkun matarafganga. Af öðrum breytingum á hegðun sem spurt var um höfðu færri en helmingur þátttakenda gert. Sem dæmi má nefna að 24% höfðu dregið úr fjölda flugferða, 17% minnkað neyslu dýraafurða og 5% höfðu skipt í rafmagnsbíl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert